Heilbrigðiseftirlit Suðurlands rannsakar nú mögulega hópsýkingu af völdum E.coli-bakteríunnar sem kom upp á Rjúpnavöllum í Rangárþingi ytra.
RÚV greindi fyrst frá.
Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, segir í samtali við mbl.is að nokkrir hafi veikst en ekki sé vitað hvort það hafi verið vegna þess að mengun sé í einkavatnsbólinu á Rjúpnavöllum eða hvort að aðrir þættir hafi spilað inn í.
Segir hún að málið sé nú til rannsóknar og að tvö viðbótarsýni hafi verið tekin í dag sem eru á leið til rannsóknar og að málið sé unnið í samstarfi við sóttvarnalækni og Matvælastofnun.
„Þetta er allt gert í góðri samvinnu. Þegar það eru svona margir sem veikjast þá er þetta tekið sem hópsýking og þá viljum við reyna að komast að upptökunum.“
Segist Sigrún ekki hafa nákvæma tölu á hve margir veiktust eða nákvæmar upplýsingar um heilsu þeirra.
Á hún von á niðurstöðum sýnatökunnar á næstu dögum.
„Viðbótarsýnin voru tekin í dag og það tekur yfirleitt 2-3 daga að fá niðurstöður úr svona örverurannsóknum.“