Meira magn af kviku: Víða að byggjast upp spenna

Horft yfir hraunbreiðuna við Sundhnúkagígaröðina.
Horft yfir hraunbreiðuna við Sundhnúkagígaröðina. Skjáskot/Vefmyndavél mbl.is

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir nánast engar líkur á að gos komi upp innan bæjarmarka Grindavíkur. Líkur á enn einu eldgosinu á Reykjanesskaganum aukist þó dag frá degi.

„Miðað við þá útreikninga sem hafa verið gerðir þá er komið meira kvikumagn í þennan grunnstæða geymi heldur en fyrir síðasta gos þannig að þetta er komið umfram þolmörkin. Það er spurning hvort eitthvað gerist á næstu klukkutímum eða dögum og við fáum endurtekið efni,“ segir Þorvaldur.

Spurður hvort hann sjái fyrir sér öflugra eldgos en síðustu gos segir Þorvaldur:

„Ef þetta dregst í einhverjar vikur til viðbótar þá verður gosið eitthvað stærra og hraunið þá í meira magni. Ef það er að draga aðeins úr innflæðinu úr stóru kvikugeymslunni þá getur tekið lengri tíma að komast að þolmörkunum. Þá fáum við eitthvað aðeins stærra gos en svipað að afli,“ segir Þorvaldur.

Á svipum slóðum og síðast

Þorvaldur segir að ef ekki verði farið að gjósa í lok september þá geti orðið alls konar breytingar. Hann gerir fastlega ráð fyrir því að gosið verði á svipuðum slóðum á Sundhnúkagígaröðinni og síðast.

„Fyrir mér eru nánast engar líkur á að gos komi upp inni í Grindavík þó svo að við getum alveg horft upp á endurtekningu frá atburðunum 14. janúar,“ segir Þorvaldur en í gosinu sem hófst 14. janúar flæddi hraun yfir nokkur hús í bænum.

„Við sjáum ekki merki um þessa kviku sem alltaf er verið að tala um að sé undir Grindavík. Það er lína á sunnanverðum Reykjanesskaganum þar sem við höfum enga gíga eða sprungur og Grindavík er sunnan við þessa línu,“ segir Þorvaldur.

Hann segir að það hafi ekki gosið sunnan við þessa línu á síðustu 14 þúsund árum og það sé mjög ólíklegt að það gerist nú. „Líkurnar eru mjög litlar þótt við getum ekki útlokað það,“ segir Þorvaldur.

Fleiri eldstöðvar komnar á tíma

Það hefur verið töluverð skjálftavirkni víðs vegar um landið á síðustu dögum. Spurður hvort þrýstingur undir Reykjanesskaganum sé að hafa áhrif hvað það varðar segir hann:

„Það er víða að byggjast upp spenna og að sjálfsögðu er möguleiki á því að ef það er spennulosun á einum stað þá hafi það keðjuverkandi áhrif. Við erum með margar eldstöðvar og eldstöðvakerfi sem eru komin á tíma en það er athyglisvert að þessir skjálftar komi svona í gusum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert