Björgunarsveitir frá Hvolsvelli, undir Eyjafjöllum og úr Vík í Mýrdal, komu tveimur göngumönnum til aðstoðar á Fimmvörðuhálsi í gærkvöld en útkall barst til Landsbjargar um klukkan 20 í gær.
„Björgunarsveitirnar fundu þá rétt upp úr 9 í gærkvöld þar sem þeir voru blautir, hraktir og kaldir. Þeir voru teknir inn í björgunarsveitarbíl þar sem þeir gátu komist í þurr föt og þeim var svo skutlað niður að Skógum þar sem bíllinn þeirra var staðsettur. Þetta fór því vel,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Hann segir að líklega hafi þeir ekki verið nægilega vel búnir miðað við veðurspána eins og hún leit út í gær.