Allir fjórir farþegar bílanna tveggja sem skullu saman í gær við Gígjukvísl voru erlendir.
Um er að ræða ferðamenn frá Bandaríkjunum og Spáni.
Aldursbil ferðamannanna er breitt, allt frá þrítugsaldri yfir á fimmtugsaldur og var um tvo fólksbíla að ræða.
Þá var tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kölluð á vettvang þar sem slysið var metið sem alvarlegt. Rannsókn er enn í fullum gangi og eru tildrög ekki ljós.
Þetta staðfestir Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Þá segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, að skýrslutöku sé ekki lokið.
Útkall vegna slyssins, sem gerðist nálægt Gígjukvísl á Skeiðarársandi, barst lögreglu klukkan 14.21 í gær. Hringveginum var lokað í kjölfarið og þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang.
Allir fjórir voru fluttir á Landsspítalann með þyrlunni en einn var sagður með verri áverka en hinir þrír, ekki hafi þó verið um lífshættulega áverka að ræða.