Jarðskjálftahrina við Reykjanestá

Lítil skjálftahrina hófst í morgun og stendur enn yfir.
Lítil skjálftahrina hófst í morgun og stendur enn yfir. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Lítil jarðskjálftahrina hefur staðið yfir í morgun við Reykjanestá. Er hún ótengd kvikuganginum við Grindavík, þar sem búist má við atburði á hverri stundu.

Þetta segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Það koma reglulega hrinur á Reykjanestá. Það er mikil spenna í kerfinu þannig það er ekkert óalgengt að fá svona hrinur á Reykjanestánni,“ segir Minney.

Veðurstofan hefur mælt rúmlega 20 skjálfta í hrinunni. Þar af var sá stærsti 2,3 að stærð, sem reið yfir klukkan 7.39.

„Komin algjörlega á efri þolmörk kerfisins“

Eins og fyrr segir þá er þessi skjálftahrina ekki tengd kvikuganginum við Grindavík, þar sem búist er við kvikuhlaupi eða eldgosi á hverri stundu.

„Það er áframhaldandi skjálftavirkni þar. Ekkert óvenjulegt, bara svipað ástand þar og hefur verið síðustu vikur,“ segir hún um skjálftavirkni í og við kvikuganginn.

„Við erum að bíða og búast við öllu. Þetta getur gerst í dag, getur gerst í næstu viku. Það er mjög erfitt að segja til um það en við erum komin algjörlega á efri þolmörk kerfisins, þannig við erum alveg að búast við þessu fyrr heldur en seinna,“ segir Minney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert