Margrét Víkingsdóttir, íbúi í húsi að Amtmannsstíg 6, segist þakklát hundinum sínum Úlfgrími Lokasyni og starfsfólki Menntaskólans í Reykjavík fyrir að aðstoða hana við að komast úr íbúð sinni þegar eldur kom upp í húsinu.
Þetta segir Margrét í samtali við mbl.is.
Eldurinn kom upp í húsinu í gærmorgun. Einn lést í eldsvoðanum, tónlistarmaðurinn Halldór Bragason.
„Það er hundurinn sem stuggar við mér, hann tosar alltaf í mig á morgnana, um tíuleytið og vill fara á svalirnar,“ segir Margrét. Hins vegar hafi Úlfgrímur um áttaleytið í gærmorgun verið ákveðinn í að komast út og tosað í Margréti á meðan hún svaf.
„Ég stend upp og finnst ég sjá ofsjónir eins og reyk og nudda á mér augun og fer fram í stofu. Ég sé þá meiri reyk og fer niður og þá heyri ég bankað á dyrnar,“ segir Margrét.
Hún hafi opnað útidyrnar og þar verið fólk sem sagði henni að koma út úr húsinu samstundis vegna þess að það væri kviknaði í húsinu.
„Þetta var menntaskólafólkið sem hafði verið að fara til vinnu um morguninn og séð reyk koma úr glugganum hjá nágrannanum og hringdu á 112,“ segir Margrét en Menntaskólinn í Reykjavík er til húsa rétt hjá henni.
Margrét segist hafa reynt að vekja nágranna sinn sem bjó í sama húsi. Hún bankaði fast og ítrekað á hurðina hjá honum án árangurs.
„Ég myndi að segja að hundurinn hafi náð mér út á réttum tíma af því ég fann alveg fyrir reyknum í hálsinum. Hann var ekki orðinn svartur og dökkur heldur dökkgrár en þéttur,“ segir Margrét.
Iðnaðarmenn, húsvörður og kennarar við Menntaskólann í Reykjavík komu svo með hrúgu af fötum, teppum og úlpu fyrir Margréti.
Í kjallara hússins að Amtmannsstíg 6 leigir maður herbergi sem Margrét náði í. Fengu þau tvö skjól í húsakynnum Menntaskólans í Reykjavík þar sem þeim var boðið kaffi og bakkelsi.
„Þetta var afskaplega fallega gert af nágrannanum MR,“ segir Margrét.
Aðspurð segir Margrét það algjöra tilviljun að einhver hafi verið á ferðinni svo snemma hjá húsinu.
„Að einhver hafi rekið augun í gluggann því það voru allir gluggar lokaðir nema einn gluggi hjá nágrannanum sem snýr í hina áttina,“ segir hún.
Margrét segist almennt róleg að eðlisfari og starfar sem leiðsögumaður.
„Þegar ég kem að slysum þá sé ég bara hvað þarf að gera. Ég sé alveg röðunina á því hvað þarf að gera og til dæmis á leiðinni úr íbúðinni, þá lokaði ég öllu hjá mér svo það færi ekki súrefni á milli herbergja.“
Aðspurð segist Margrét vera hraust þrátt fyrir brunann.
„Ég er núna í næsta húsi að passa hund fyrir nágranna sem fóru til útlanda í fyrradag og þau eiga lítinn hund hérna sem er mikill vinur hundsins míns,“ segir Margrét. Nágrannarnir buðu henni að gista í íbúðinni sinni eftir að eldurinn kom upp.
Spurð hvernig ástandið er á íbúðinni hennar segir Margrét að hún hafi virst í góðu standi þrátt fyrir eldsvoðann. Hins vegar hafi verið svakalega mikil brunalykt í íbúðinni.
„Það eina sem ég kvíði fyrir eru einhver leiðindi í kringum tryggingamál,“ segir Margrét en hún segist sjálf enn vera að átta sig á hver næstu skref eru eftir brunann.
„Ég hef ekki hugmynd hvern ég á að hafa samband við núna,“ segir Margrét að lokum.