Halldór Bragason gítarleikari lést í brunanum á Amtmannsstíg í gær. Hann var á 68. aldursári. Halldór var forsprakki blússveitarinnar Vinir Dóra og stóð m.a. fyrir Blúshátíð Reykjavíkur um árabil.
Halldór fæddist 6. nóvember 1956 i Reykjavík og ólst upp í Hlíðunum. Foreldrar hans voru Steinunn Snorradóttir og Bragi Kristjánsson. Halldór á tvö eldri systkini, Helga og Bertu.
Halldór kynntist tónlistinni ungur að árum, fékk gítar í fermingargjöf og var fljótlega farinn að spila með hljómsveitum. Blússveitin Vinir Dóra lék fyrst opinberlega 1989 og kom fram á fjölda tónleika hér á landi og á blúshátíðum erlendis. Átti Halldór m.a. gott samstarf við hinn þekkta tónlistarmann Chicago Beau, og bjó um tíma í Montreal í Kanada. Meðal annarra hljómsveita sem Halldór lék með voru Landsliðið, The Riot, Þrælarnir og Big nós band.
Halldór var meðal stofnenda Blúsfélags Reykjavíkur árið 2004, sem efndi til Blúshátíðar Reykjavíkur í mörg ár. Var Halldór útnefndur heiðursfélagi Blúsfélagsins árið 2013.
Meðfram tónlistinni vann Halldór m.a. á kvikmyndadeild Sjónvarpsins í nokkur ár, um tíma í tölvudeild BYKO og sem áfengisráðgjafi á Vogi.
Halldór átti tvo syni, Braga og Andra Frey, en Bragi lést árið 2005, tvítugur að aldri. Andri Freyr á eina dóttur, Ásdísi Freyju, með Töru Gunnarsdóttur.
Ítarlegt viðtal Orra Páls Ormarssonar birtist við Halldór í Tímariti Morgunblaðsins í apríl 2006.