„Maður er eiginlega hálf orðlaus“

Katla Njálsdóttir og Elín Hall fara með aðalhlutverk í myndinni.
Katla Njálsdóttir og Elín Hall fara með aðalhlutverk í myndinni. Ljósmynd/Aðsend

Í morgun var tilkynnt að kvikmyndin Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson væri meðal þeirra mynda sem valdar hafa verið til forvals Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Rúnar segir að um sé að ræða gífurlega viðurkenningu fyrir aðstandendur myndarinnar og íslenska kvikmyndagerð.

Ljósbrot, sem frumsýnd verður á Íslandi í lok mánaðarins, hefur vægast sagt farið sigurför um heiminn síðan hún var opnunarmyndin á Kvikmyndahátíðinni í Cannes. Þar hlaut myndin standandi lófaklapp áhorfanda sem og góða dóma gagnrýnenda.

Til að mynda settu kvikmyndatímaritin Hollywood Reporter og Screendaily myndina á sína lista yfir bestu myndirnar á Cannes-hátíðinni að þessu sinni.

Þá hefur Ljósbrot einnig unnið til fernra alþjóðlegra kvikmyndaverðlauna í sumar.

Viðurkenning fyrir íslenska kvikmyndagerð

„Maður er eiginlega hálf orðlaus yfir því hvernig þetta er búið að ganga síðan í vor. Við erum búin að vera að fá klapp á bakið, því er búið að vera að rigna inn og síðan er það að kristallast í þessu,“ segir Rúnar spurður hvernig tíðindin um forvalið leggist í hann.

Þá segir hann að gríðarlega stór hópur fólks hafi komið að myndinni og að um sé að ræða mikla viðurkenningu fyrir allan þann hóp og íslenska kvikmyndageirann.

„Það gleymist oft í umfjöllun um bíómyndir að það er alveg ótrúlegur fjöldi fólks sem kemur að því að koma svona verki á koppinn. Þetta er náttúrulega gríðarleg viðurkenning fyrir okkur öll og fyrir íslenska kvikmyndagerð og það góða starf sem hefur verið unnið síðustu ár, bæði af einkaaðilum í geiranum til að undirbúa jarðveginn og af stjórnvöldum til að rækta þessi verk.“

„Maður á ekkert skilið“

Spurður hvort að það venjist að fá viðurkenningar sem þessa segir Rúnar svo ekki vera og bendir á að árangur á borð við þennan er ekki það sem maður leggur upp með þegar búa á til kvikmynd.

„Maður á ekkert skilið og það er ekkert í hendi þegar að við leggjum af stað í svona ferðalag. Það er nógu erfitt að koma þessu á koppinn til að geta síðan lagt af stað með helling af fólki. Þannig að fyrsta markmiðið er alltaf að ná í land og ná til þess land sem var lagt upp með að leggja af stað til.

Allir bitlingar stórir og smáir eru vel þegnir en þegar upp er staðið er maður bara þakklátur fyrir að hafa komið svona kraftaverki á koppinn,“ segir Rúnar.

Rúnar Rúnarsson ásamt aðalleikurum myndarinnar Ágústi Wigum, Gunnari Kristjánssyni, Elínu …
Rúnar Rúnarsson ásamt aðalleikurum myndarinnar Ágústi Wigum, Gunnari Kristjánssyni, Elínu Hall, Kötlu Njálsdóttir, Mikaeli Kaaber og Baldri Einarssyni. Ljósmynd/Aðsend

Hlakka til að fá íslensk viðbrögð

Spurður hvernig það leggist í hann að sýna myndina loks á Íslandi eftir að hafa ferðast með hana um heiminn í nokkra mánuði kveðst Rúnar vera mjög spenntur.

„Nú er maður búinn að vera að þvælast aðeins með myndinni og fólk er að hlægja á mismunandi stöðum og það er áhugavert að bera saman mismunandi þjóðir og sjá hvar áhorfendur eru að bregðast við. Til að byrja með leggjum við auðvitað upp með að búa til mynd um íslenskan raunveruleika fyrir íslenska áhorfendur,“ segir Rúnar og bætir við:

„Okkur hlakkar voðalega til að frumsýna hérna heima og fá íslensk viðbrögð við litla barninu okkar.“

Langar til að leggja sig

Nýlega var einnig tilkynnt um að stuttmyndin O (Hringur) eftir Rúnar sem Ingvar E. Sigurðsson fer með aðalhlutverk í hafi verið valin í keppni stuttmynda á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Þá hafa bæði sú stuttmynd og Ljósbrot verið valdar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Toronto en hún er ein helsta kvikmyndahátíðin vestanhafs.

Spurður hvað sé næst á dagskrá hjá honum segir Rúnar: „Næsta hálfa árið fer í að sinna þessum tveimur verkum og kynningarstarfi. Svo er ég búinn að vera svo duglegur síðasta árið og er orðinn dálítið sybbinn svo mig langar svolítið bara til að leggja mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert