Tveimur Jet-Stream-skrúfuþotum í eigu flugfélagsins Ernis hefur verið lagt og eru þær nú á geymslusvæði á Reykjavíkurflugvelli.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Standa þær við flugskýli í Skerjafirði og hafa verið þar síðustu mánuði. Þetta eru flugvélarnar TF-ORD og TF-ORC sem báðar voru í áraraðir í þjónustu Ernis og reyndust vel.
„Þessar flugvélar eru nú eftir langan og farsælan líftíma komnar á tíma ef svo mætti segja,“ segir Leifur Hallgrímsson, sem er ábyrgðarmaður flugrekstrar Ernis gagnvart Samgöngustofu.
TF-ORD er frá árinu 1987 og verður ekki flogið meira. Í umræðu hefur verið að slökkvilið Isavia á Reykjavíkurflugvelli fái vélina og hún verði notuð til æfinga við reykköfun.
Hin flugvélin, TF ORC, er árgerð 1991 og hefur ekki verið flogið í 2-3 ár. Eigi hún aftur að fara í notkun liggur fyrir að skipta þyrfti um mótor og fara í umfangsmiklar skoðanir.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvað gert verði við flugvélina, en Leifur telur þó ósennilegt að henni verði flogið meira.