„Við teljum líkur á að dómurinn muni hafa áhrif á störf endurskoðenda þegar kemur að gerð sérfræðiskýrslna.“
Þetta segir í skriflegu svari Unnars Friðriks Pálssonar, framkvæmdastjóra Félags löggiltra endurskoðenda, við fyrirspurn mbl.is um hvort dómur Hæstaréttar hefði áhrif á störf endurskoðenda.
Í júní féll dómur í Hæstarétti sem varðaði endurskoðanda og endurskoðendaskrifstofuna Ernst & Young. Var skaðabótaskylda þeirra staðfest vegna saknæmrar háttsemi endurskoðandans við gerð sérfræðiskýrslu. Nam skaðabótaskyldan 114 milljónum króna.
„FLE mun á næstu mánuðum kryfja málið frekar og í framhaldinu fjalla um það og líkleg áhrif á vettvangi félagsins,“ segir jafnframt í svarinu.
Ágreiningsatriði málsins sneru að hlutafjárhækkun félagsins Sameinaðs Sílikons ehf. í lok árs 2016. Þar gerði endurskoðandinn sérfræðiskýrslu vegna hlutafjárhækkunarinnar.
Hæstiréttur segir í dómnum að sérfræðiskýrslan hafi leitt til þess að greiðslan sem barst félaginu hafi verið lægri en sem nam skráðri hlutafjáraukningu.
Ástæða þess verði fyrst og fremst rakin til þess að hann sýndi ekki nægilega gætni við val á forsendum um rekstrarkostnaðarhlutfall og ávöxtunarkröfu í skýrslunni.