Þeir fimm Íslendingar sem senn halda út á Ólympíumót fatlaðra í París í Frakklandi fengu hlýjar móttökur á Bessastöðum í gær.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Björn Skúlason eiginmaður hennar tóku á móti hópnum auk aðstandenda og fulltrúa frá Íþróttasambandi fatlaðra.
Már Gunnarsson, Róbert Ísak Jónsson, Sonja Sigurðardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir keppa öll fyrir Íslands hönd í sundi en Ingeborg Eide Garðarsdóttir keppir í frjálsum íþróttum. Max leiðsöguhundur Más fylgdi honum að sjálfsögðu á Bessastaði og vakti mikla lukku.
Ólympíumót fatlaðra hefst þann 28. ágúst næstkomandi og lýkur 8. september. Forsetahjónin munu fara á Ólympíumótið í París í lok ágúst.