Alls sóttu sex manns um embætti forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar og vekur athygli að Halla Hrund Logadóttir núverandi orkumálastjóri er ekki meðal umsækjenda.
Eftirtaldir sóttu um embættið: Björn Arnar Hauksson, deildarstjóri hjá Orkustofnun, Gestur Pétursson, M.Sc. í iðnaðar- og rekstrarverkfræði, Halla María Sveinbjörnsdóttir, lögfræðingur og mannauðsstjóri, Markús Ingólfur Eiríksson, doktor í endurskoðun, Rakel Rún Karlsdóttir jarðfræðingur og Soffía Björk
Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri.
Embættið var auglýst laust til umsóknar í byrjun júlí sl. en umsóknarfrestur rann út í lok sama mánaðar.
Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar, skv. breytingum á lögum þar um sem samþykktar voru á Alþingi skömmu fyrir þinglok í vor.
Hæfnisnefnd sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði metur hæfi og hæfni umsækjenda og skilar greinargerð þar um til ráðherra sem síðan skipar í embættið.
Meðal markmiða breytinga á stofnunum sem samþykktar voru á þingi sl. vor og undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið heyra var að fjölga störfum á landsbyggðinni og mun forstjóri nýju stofnunarinnar hafa aðsetur á Akureyri.