Kjaraviðræður fara rólega í gang

Ástráður segir viðræður fara rólega af stað.
Ástráður segir viðræður fara rólega af stað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allmörg stéttarfélög eiga enn ósamið við viðsemjendur um endurnýjun kjarasamninga. Eru samtöl og viðræður í gangi þessa dagana og nokkur mál eru á borði ríkissáttasemjara sem vísað hefur verið til sáttameðferðar. Ekki hefur þó dregið til neinna sérstakra tíðinda enn sem komið er, samkvæmt upplýsingum Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara.

„Við erum að starta viðræðum aftur eftir sumarleyfi og þær fara rólega í gang,“ segir Ástráður. „Þetta er allt bara í mjög yfirveguðum stellingum,“ bætir hann við.

Meðal deilna sem hafa komið til kasta sáttasemjara er kjaradeila Læknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins og halda þær viðræður áfram að hans sögn. Kjaradeilu Tollvarðafélags Íslands og samninganefndar ríkisins var vísað til meðferðar gerðardóms fyrr í sumar og mun gerðardómur taka til starfa um næstu mánaðamót.

Viðræður við kennarafélögin

Stéttarfélög kennara eiga öll eftir að ganga frá nýjum kjarasamningum og eru í viðræðum eða samtölum þessa dagana við sína viðsemjendur hjá hinu opinbera. Þeirra mál eru ekki komin til ríkissáttasemjara en Ástráður á von á að skýrast muni á næstu tveimur vikum eða svo hver þróunin verður í viðræðum þeirra.

Tíð fundahöld hafa verið á undanförnum dögum í viðræðum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríki og Reykjavíkurborg. Kom fram á vef FÍH í gær að áfram sé stefnt að því að semja til fjögurra ára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert