Ætla að koma vel lestuð á þing ASÍ

Finnbjörn tók við embættinu á þingi ASÍ í apríl í …
Finnbjörn tók við embættinu á þingi ASÍ í apríl í fyrra. mbl.is/Sigurður Bogi

Undirbúningur er í fullum gangi fyrir 46. þing Alþýðusambands Íslands sem haldið verður 16.-18. október. Mikil málefnavinna er í gangi fyrir þingið. Fulltrúar ASÍ fóru hringferð um landið og funduðu með félagsmönnum og önnur hringferð stendur fyrir dyrum.

Afrakstur fundanna er notaður til að búa til drög að ályktunum sem hafa verið birt á sérstökum vef þingsins um þau þrjú höfuðmál sem fjalla á um á þinginu.

„Við fórum hringferð og héldum tíu fundi með félögum okkar í stjórnum og trúnaðarráðum víðsvegar um landið. Við erum síðan að fara aftur í hringferð og leggjum af stað eftir rúma viku. Þar munum við vinna þetta áfram og ítarlegar, þar sem menn munu bæta kjöti á beinin um aðgerðir og annað sem við sjáum fram á að þurfi að gera í þessum málaflokkum,“ segir Finnbjörn Hermannsson forseti ASÍ. „Við höldum tíu fundi á tveimur vikum og því næst taka félögin við og undirbúa sína félagsmenn sem verða fulltrúar á þinginu og nota þá þetta efni. Við munum koma mjög vel lestuð málefnalega til þings,“ segir hann. Kjósa á forystu ASÍ á þinginu og spurður hvort hann gefi áfram kost á sér sem forseti ASÍ segist Finnbjörn ekki vera búinn að ákveða það.

„Nú þarf maður bara að leggjast undir feld og íhuga málin, hvort það sé einhver eftirspurn og hvort maður er tilbúinn að halda þessu áfram. Það er nokkuð sem ég er ekki búinn að gera upp við mig,“ segir hann.

Aðalmál þingsins snúast um auðlindir í þágu þjóðar og varðstöðu um sameignir þjóðarinnar, þjónustu í þágu almennings, bætt aðgengi og að horfið verði frá einkavæðingu og loks samkeppni í þágu samfélags og að spornað sé gegn fákeppni og einokun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert