Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hafnar ásökunum Ástu Þ. Skjalddal Guðjónsdóttur, áheyrnafulltrúa Sósíalistaflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar, um ofbeldismenningu og einelti í garð Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Ásta hefur sent forseta borgarstjórnar erindi þar sem hún kvartar undan framkomu Hjálmars í garð Kolbrúnar. Í því segir að á fundi umhverfis- og skipulagsráðs á miðvikudag hafi Hjálmar veist að Kolbrúnu á „einstaklega rætinn og ómaklegan hátt“.
„Hjálmari blöskraði fjöldi tillagna og fyrirspurna frá Flokki fólksins sem hann gerði athugasemd við með því að hæðast að og gera lítið úr borgarfulltrúa, varaborgarfulltrúa, flokknum og kjósendum hans og þetta var langt í frá fyrsta skiptið sem hann notar niðurlægjandi svip, tón og orðfæri við minnihlutann svo eftir er tekið,“ segir meðal annars í erindinu.
Hjálmar segir að á umræddum fundi hafi um 20 fyrirspurnir og tillögur verið lagðar fram af áheyrnafulltrúa Flokk fólksins í ráðinu.
„Það er rétt að ég gerði athugasemd á fundinum við mjög mikinn fjölda tillagna og fyrirspurna sem að jafnaði berast frá áheyrnafulltrúa Flokks fólksins. Ég geri mér grein fyrir að auðvitað hefur fólk rétt á því. Ég var bara að benda á það að það er margt mikilvægt sem að sviðið þarf að gera hverju sinni og það fer mjög mikill tími í að svara þessu öllu. Þannig að mér finnst þetta vera svolítið úr jafnvægi, þessi endurtekni mikli fjöldi fyrirspurna,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.
Að öðru leyti segir hann trúnað ríkja yfir því sem að sagt var á fundinum.
Kolbrún sagði í samtali við mbl.is í dag að fulltrúar Flokks fólksins hafi ítrekað þurft að þola óásættanlega framkomu frá fulltrúum meirihlutans í borgarstjórn.
Spurður út í þessar ásakanir segir Hjálmar:
„Ég kannast við þessar ásakanir en ég vísa því algjörlega á bug. Ég ætla ekki að vera með gangkvæmar ásakanir.“
Kolbrún sagði einnig fulltrúa meirihlutans ekki vilja fá mál frá þeim sem eru í minnihluta. Hjálmar segir þetta rangt.
„Það er algjörlega rangt. Meirihlutinn kannski samþykkir ekki tillögur minnihlutans en það er ekki rétt það sem felst í þessum orðum,“ segir Hjálmar.