Alvarleg staða og erfið hjá kennurum

Ósamið er við ríki og sveitarfélög og staðan er erfið.
Ósamið er við ríki og sveitarfélög og staðan er erfið. mbl.is/Hari

Öll aðildarfélög kennara í Kennarasambandi Íslands eru með lausa kjarasamninga og eiga enn ósamið við ríki og sveitarfélög. Hlé var gert á kjaraviðræðunum í sumar og hefur ekki verið boðað til formlegra samningafunda eftir sumarleyfin en óformleg samtöl og þreifingar hafa þó átt sér stað.

Mikil óþreyja er komin í kennara sem vilja fara að landa samningi að sögn Guðjóns Hreins Haukssonar, formanns Félags framhaldsskólakennara (FF). Kjarasamningur félagsins rann út 1. apríl eða fyrir tæpum fimm mánuðum.

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara.

„Það er í rauninni bara alvarleg staða og erfið og hefur verið lítill skilningur hjá samninganefnd ríkisins á kröfum kennara,“ segir hann. Forysta KÍ og allar samninganefndir aðildarfélaga KÍ hafa gert að sameiginlegu forgangsmáli við samningaborðið að opinberir launagreiðendur standi við gefin loforð um jöfnun launa á milli opinbera og almenna markaðarins. Það var hluti samkomulagsins árið 2016 um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Er sögð mikil samstaða allra kennarafélaganna um að þetta verkefni verði leitt til lykta. Kjarasamningsviðræðunum muni ekki ljúka fyrr en búið sé að ganga frá jöfnun launa á milli markaða. Að sögn Guðjóns hefur hins vegar lítið þokast í viðræðunum um það.

Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ.
Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ. Ljósmynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Magnús Þór Jónsson formaður KÍ segir að óformleg samtöl séu í gangi milli aðila en ekki sé hægt að segja að formlegar samningaviðræður séu hafnar. Því sé ómögulegt að horfa inn í tímarammann fram undan.

„Kennarasambandið hefur látið vita að aðildarfélög þess hafa horft til verkefnisins um jöfnun launa milli markaða sem sameiginlegra áherslna þeirra allra í kjaraviðræðum og það sýnist mér sýna ákveðna sérstöðu á meðal opinberu launþegasamtakanna,“ segir hann.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert