„Mér er það algerlega óskiljanlegt hvað ráðamenn hér heima eru skilningslausir gagnvart virku eftirliti í fiskveiðilögsögunni okkar,“ segir Halldór B. Nellett fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni í samtali við Morgunblaðið.
„Ég fullyrði að lögsagan er nær alveg eftirlitslaus vikum og mánuðum saman, sérstaklega djúpslóðin, og við vitum ekkert hvað er í gangi þar. Þyrlurnar duga skammt til eftirlits og alls ekki á djúpslóð enda eru þær í endalausum útköllum um allar trissur,“ bætir Halldór við.
Tilefni samtalsins er þær fréttir sem Morgunblaðið færði landsmönnum í síðustu viku að alvarleg bilun hefði orðið í flugvélinni TF-SIF og vélin því ekkert getað sinnt eftirliti á miðunum í sumar eins og til stóð. Halldór er einn reyndasti varðmaður landhelginnar. Hann starfaði hjá Landhelgisgæslunni í 48 ár og tók þátt í tveimur þorskastríðum. Hann var síðast skipherra á Þór en lét af störfum í desember 2020.
Halldór segir að hér áður fyrr hafi að jafnaði verið farið í 4-5 flug á viku á gamla Fokkernum til eftirlits, bæði grunnt og djúpt við landið. Í sumar hafi engin eftirlitsferð verið farin á djúpslóð. Einhverjar radarmyndir sé hægt að panta og fá af djúpslóðinni í samvinnu við Evrópusambandið. Þær myndir séu afskaplega stopular og á þeim sé ekki hægt að greina minni skip. Að auki sýni hver mynd ekki stórt svæði.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.