Um 800 einstaklingar á biðlista eftir stúdentaíbúðum

Umsækjendur voru um 2613 talsins.
Umsækjendur voru um 2613 talsins. mbl.is/Hanna

Félagsstofnun stúdenta (FS) hefur lokið haustúthlutun húsnæðis á Stúdentagörðum og voru um 632 leigueiningar úthlutaðar til tæplega 700 stúdenta, en umsækjendur voru 2.613 talsins.

Umtalsverð aukning var á eftirspurn eftir stúdentaíbúðum á síðasta ári, eða um 26%. Þá eru um 800 einstaklingar á biðlista og er mikilvægt að halda uppbyggingu áfram, að því er fram kemur í tilkynningu. 

Leigueiningum fjölgað

Á síðustu fjórum árum hefur FS fjölgað leigueiningum á háskólasvæðinu um 433. Á vormisseri 2023 voru 111 nýjar einstaklingsíbúðir teknar í notkun á Sögu við Hagatorg og á haustmisseri tíu einstaklingsíbúðir í nýju húsi á Skuggagörðum við Lindargötu.

Í dag hefur FS um 1.610 leigueiningar til ráðstöfunar þar sem um 2.100 einstaklingar, stúdentar og fjölskyldur þeirra búa. FS hefur með markvissri uppbyggingu leigueininga á Stúdentagörðum náð miklum árangri í að vinna á langvarandi og erfiðu ástandi sem ríkt hefur í húsnæðismálum stúdenta við Háskóla Íslands en betur má ef duga skal, segir enn fremur í tilkynningu FS.

Enn er langt í land

FS bindur vonir við að uppbygging nýs hverfis í Skerjafirði verði að veruleika. Þar er stefnt að því að byggja þriggja herbergja íbúðir, 107 í fyrsta áfanga og allt að 79 í öðrum áfanga Skerjafjarðar.

Einnig hefur FS óskað eftir kaupum á Stapa, gamla Stúdentaheimilinu, af Háskóla Íslands og breyta í stúdentagarð. Þar væri hægt að koma fyrir 49 herbergjum með sameiginlegri aðstöðu og skapa tækifæri til að skapa enn þéttara og samheldnara samfélag íbúa við Hringbraut, segir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert