Tveir stungnir í gistiskýlinu á Granda

Þegar lögreglu bar að garði kom í ljós að árásarþolarnir …
Þegar lögreglu bar að garði kom í ljós að árásarþolarnir tveir væru ekki alvarlega særðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um að tveir einstaklingar hefðu verið stungnir í gistiskýlinu á Granda. Gerendur hefðu verið tveir en farnir af vettvangi. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu frá klukkan 5 í morgun til klukkan 17 í dag.

Þegar lögreglu bar að garði kom í ljós að árásarþolarnir tveir væru ekki alvarlega særðir en annar þeirra fór á slysadeild til frekari aðhlynningar. Þar að auki var annar þeirra rændur. 

„Stuttu seinna kom tilkynning frá vegfaranda um grunnsamlega hegðun stuttu frá vettvangi en þar var maður sem passaði við lýsingu að fela sig undir bifreið,“ segir í dagbók lögreglu. Var maðurinn handtekinn af lögreglu og vistaður vegna málsins.

Tvíhandtekinn einstaklingur

Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að einstaklingur sem hafi verið vistaður í fangageymslu í nótt og sleppt í morgun hafi verið handtekinn aftur í dag.

„Nú hafði hann veist að starfsmanni íbúðarkjarna en komist undan lögreglu,“ segir í dagbókinni.

Hann hafi svo komið aftur nokkru seinna og þá verið að reyna að brjóta sér leið þar inn þegar lögregla kom á vettvang. Var hann þá handtekinn að nýju.

Uppfært klukkan 18:18

Í samtali við mbl.is segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að árásarmaðurinn í gistiskýlinu á Granda verði yfirheyrður í dag og í kvöld.

Annars geti hann ekki gefið frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert