Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar að manni sem tók þátt í stunguárás í gistiskýlinu á Granda í gær. Tveir voru stungnir og annar þeirra rændur.
Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar aðstoðaryfirlögregluþjóns er maðurinn sem um ræðir góðkunningi lögreglunnar.
„Það á eftir að ná honum en við vitum hver hann er.“
Tveir menn voru að verki og er nú leitað að öðrum þeirra.
Lögregla hefur handsamað og yfirheyrt hinn árásarmanninn og var honum sleppt í kjölfarið.
Jóhann staðfestir að um eitt árásarvopn hafi verið að ræða og að lögregla sé með það í vörslu sinni. Enn eigi þó eftir að upplýsa hvor mannanna beitti eggvopninu.
Hinir særðu hlutu ekki alvarlega áverka. Annar var hafi fluttur til skoðunar á sjúkrahúsi en er nú útskrifaður.