Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir að hafa stungið annan mann, skemmt bifreið hans og farið heimildarlaust inn á heimili hans. Átti árásin sér stað í mars árið 2022.
Fram kemur í ákæru að um sérstaklega hættulega líkamsárás sé að ræða. Er því lýst að maðurinn hafi fyrst valdið spjöllum á bifreiðinni með því að slá slökkvitæki nokkrum sinnum í framrúðu bifreiðarinnar þannig að hún brotnaði. Fór hann því næst inn á heimili hins mannsins heimildarlaust.
Kemur fram að þar hafi mennirnir lent í átökum og stakk árásarmaðurinn hinn tvívegis vinstra megin í brjóstkassann. Hlaut hann auk þess ýmiss önnur eymsli vegna átakanna.
Auk þess að fara fram á refsingu yfir manninum fer sá sem fyrir árásinni varð fram á fjórar milljónir í skaða- og miskabætur.
Málið verður þingfest á morgun í Héraðsdómi Reykjaness.