Gjörsamlega blekaðir í Iðnó

Lítt stoðar að vera hræddur við nálar í Iðnó um …
Lítt stoðar að vera hræddur við nálar í Iðnó um helgina því þar verður suðandi húðflúrnálum brugðið á loft í höndum snillinga alla helgina. Ljósmynd/FjölnisFest

„Við erum hérna aftur í ár í Iðnó, þetta heppnaðist svo vel í fyrra,“ segir Atli Fjölnisson, betur þekktur sem Atli Arts á samfélagsmiðlum, húðflúrlistamaður og viðburðastjóri og ekki illa í ætt skotið þar, en Atli er sonur Fjölnis Geirs Bragasonar húðflúrlistamanns sem lést fyrir aldur fram í desember 2021 og varð margri íslenskri blekbyttunni harmdauði.

Faðir Fjölnis og afi Atla var Bragi heitinn Ásgeirsson myndlistarmaður sem skrifaði myndlistargagnrýni í Morgunblaðið um árabil svo þar gekk listfengið í arf, Fjölnir varð þekktur flúrgoði langt út fyrir íslenska landsteina og hélt meðal annars nafntogaðar húðflúrhátíðir í Færeyjum um nokkurra ára skeið.

Feðgarnir Bragi Ásgeirsson og Fjölnir Geir settu svip á Reykjavík …
Feðgarnir Bragi Ásgeirsson og Fjölnir Geir settu svip á Reykjavík á öldinni sem leið auk þess sem Bragi skrifaði myndlistargagnrýni af festu í Morgunblaðið. mbl.is/Golli

Blekvot hátíðarhelgi

Atli reið á vaðið í fyrrahaust og minntist föður síns með FjölnisFest-hátíðinni í Iðnó þar sem húðflúrlistamenn, tónlistarmenn og meira að segja kokkar leiddu saman hesta sína eina blekvota þriggja daga hátíðarhelgi sem Atli kveður hafa tekist vonum framar enda var faðir hans þekkt stafnlíkneski í næturlífi Reykjavíkur um margra ára skeið en sagt var að Fjölnir gengi Laugaveginn aldrei á skemmri tíma en sólarhring vegna þess hve margir gáfu sig á tal við hann á göngunni.

„Við hefðum viljað sjá meiri fjölskyldustemmningu í fyrra en við kynntum það ekki nógu vel að það var – og er núna – frítt inn fyrir börn í fylgd með forráðamönnum svo þeir sem vilja geta komið og fengið sér fyrsta flúrið sitt,“ segir Atli og telur upp ótal dagskrárliði, svo sem keppni í mismunandi húðflúrstílum og „pop-up-eldhús“ sem fæstir tengdu líklega við húðflúrstefnur.

Nöfn húðflúrstofa þróast eins og annað, margir muna vel eftir …
Nöfn húðflúrstofa þróast eins og annað, margir muna vel eftir JP Tattoo Jóns Páls Halldórssonar við Lækjartorg og síðar Laugaveg á tíunda áratugnum. Svo bættust Íslenska húðflúrstofan við, House of Pain, Tattoo og skart, sumir voru mest heima hjá sér að flúra eins og frumkvöðullinn Helgi Aðalsteinsson heitinn, Helgi tattú. Og hér er Tattoo Setrið. Ljósmynd/FjölnisFest

Staðarhaldari ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og teflir fram fjölda listamanna, 25 heldur hann en játar að hann sé hreinlega ekki viss enn þá, fólk sé enn að boða komu sína.

Hann segir allt sumarið undir í markaðssetningu, leyfismálum og fjölda horna að líta í. „Núna höfum við þó hugmynd um hvað við ætlum að gera, við vorum ekki eins vissir um það í fyrra og fórum út í óvissuna,“ játar hann og kveðst skynja meiri stemmningu fyrir hátíðinni nú þegar hún er haldin í annað sinn.

Alls konar eitthvað

Er húðflúr enn þetta vinsældarfyrirbæri, og menningarfyrirbæri, og þegar þessi listtjáning var að byrja af krafti hér á Íslandi um aldamótin?

„Þetta hefur breyst töluvert, er orðið stærra en á sama tíma eðlilegra, nú er annar hver maður kominn með eina-tvær ermar sem var alls ekki raunin hér á landi um aldamótin,“ segir Atli og á við alflúraðan handlegg, ermi, eða sleave, á saxnesku englanna.

Sumir klára hreinlega allan skrokkinn og sakna þess líklega mest …
Sumir klára hreinlega allan skrokkinn og sakna þess líklega mest að geta ekki látið flúra húðina á röngunni líka. Blekið nær stundum vissum tökum. Ljósmynd/FjölnisFest

„Núna er verið að gera hluti sem maður hefði ekki trúað að væru mögulegir í gamla daga en margir eru líka komnir í mjög mínimalísk flúr og mörgum finnst bara gaman að vera með alls konar eitthvað. Hérna voru ekki nema þrír-fjórir listamenn þegar pabbi var að byrja og þetta er gjörbreytt í dag,“ segir Atli. „Þetta er um helgina, nú er bara að koma og láta sjá sig,“ segir Atli Fjölnisson, sonur eins nafntogaðasta flúrmeistara sem Ísland hefur uppfóstrað við sitt brjóst.

Dyr Iðnó verða opnar frá 12 til 22 á föstudag og laugardag, en 12-20 á sunnudaginn, með 1.000 króna aðgangseyri fyrri tvo dagana. Frítt er inn á sunnudaginn og frítt alla helgina fyrir börn i fylgd med fullorðnum, sem fá tyggjóflúr á hátíðinni frá sjóuðum flúrurum. Foreldrarnir kannski líka biðji þeir fallega. Blek, matur, drykkur og tónlist í minningu Fjölnis Geirs Bragasonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert