„Eins og að vera í útlöndum“

Vopnafjörður er í sumarlegum búningi þessa dagana.
Vopnafjörður er í sumarlegum búningi þessa dagana. mbl.is/Jón Sigurðarson

„Það var ansi ljúft að labba út klukkan 7 í morgun í yfir 20 stiga hita og finna fyrir heitri golunni.“

Þetta segir Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri í Vopnafirði, við mbl.is en víða á Austurlandi er sannkölluð hitabylgja. Til að mynda mældist 24,8 gráðu hiti á Skjaldþingsstöðum við Vopnafjörð klukkan 9 í morgun.

Valdimar segir að það sé hálfskýjað og töluverður vindur en þegar hann leit út um gluggann sá hann að það er byrjað að létta til.

„Það getur alveg passað að hitinn sé að nálgast 25 stig á Skjaldþingsstöðum en þar er meira skjól heldur en í bænum og úti á tanga. Þetta er bara eins og að vera í útlöndum og þetta er einn besti dagurinn í sumar þótt það sé ekki sól,“ segir sveitarstjórinn.

Hann segir að það stefni í góða daga og svona veður sé svo sannarlega góð sumaruppbót.

„Það má segja að við séum búin að vera heppnari með veðrið í sumar hér á norðausturhorninu heldur en aðrir landsmenn og ef hann er að rífa af sér eins og mér sýnist er viðbúð að hitatölur geti orðið ansi háar í dag,“ segir Valdimar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert