Hitinn á Norðausturlandi hefur víða farið yfir 20 stigin í dag en hæstur hefur hann verið á Skjaldþingsstöðum við Vopnafjörð þar sem hann komst í tæpar 25 gráður.
Hitinn á þessum slóðum hefur náð hámarki að sögn Þorsteins Jónssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
„Hitinn komst í tæpar 25 gráður á Skjaldþingsstað og á Seyðisfirði mældist hitinn 24 stig. Hitinn fer að síga niður þegar líða tekur á daginn og munum ekki sjá svipaðar hitatölur þarna á morgun. Við verðum heppinn að ná 20 stigum einhvers staðar á landinu á morgun,“ segir Þorsteinn við mbl.is.
Spurður hvað skýri þennan mikla hita segir Þorsteinn:
„Það var hlýtt og rakt loft sem fór yfir landið og svo myndast líklega hnjúkaþeyr þegar rakinn skilst úr því hérna fyrir sunnan og þurra loftið kemur niður og hlýnar fyrir austan. Það er vel þekkt að hitinn nái sér vel á strik á þessum slóðum.“
Gular viðvaranir vegna hvassviðris tóku gildi í morgun á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra, Ströndum og Norðurlandi vestra, og miðhálendinu og standa fram eftir degi og fram á kvöld á nokkrum stöðum.
Þorsteinn segir að það sé mjög kviðótt á þessum slóðum og beinir því fólks að huga að lausamunum utandyra og vera ekki að fara á milli landshluta á bílum sem eru viðkvæmir fyrir vindi. Hann segir að það dragi úr vindum um kvöldmatarleytið og þá fari veðrið að lagast í þessum landshlutum.
Hvernig lítur helgin almennt út á landinu?
„Hún lítur bara nokkuð vel út en ég get ekki sagt það sama um næstu viku. Það er útlit fyrir norðanáttir í næstu viku með kulda fyrir norðan og það gæti farið að grána eitthvað í fjöllin. Það verður bjartara sunnanlands í næstu viku en engin hlýindi.
Þorsteinn segir að það geti orðið nokkuð sólríkt víða um land um helgina og þá sérstaklega norðan og austan til. Hann segir að það gangi yfir lægð með regnsvæði á laugardagskvöldið sem fari fljótt yfir.
„Laugardagurinn virðist ætla að verða ágætur með bjartviðri víða um land en á sunnudaginn verður aðeins meira skýjað með einhverjum skúrum. Síðan fer norðan áttin að láta á sér kræla á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og hún leggst svo yfir allt landið í byrjun næstu viku,“ segir Þorsteinn.