Þór á leið til aðstoðar við ferðamenn á Hornströndum

Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. mbl.is/Árni Sæberg

Varðskipið Þór er á leið á Hornstrandir til aðstoðar við erlenda ferðamenn sem eru þar í neyðarskýli.

„Það komu óljós neyðarboð um hádegisbilið frá Hlöðuvík á Hornströndum en talið er að erlendir ferðamenn sem eru þar í neyðarskýlum þurfi á aðstoð að halda,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, við mbl.is.

Hann segir að varðskipið hafi verið statt á Breiðafirði þegar kallið barst en það sé á ágætri siglingu og gert sé ráð fyrir að það verði komið á staðinn í kvöld. Hann segir óljóst hvað ami að hjá ferðamönnunum, en mikið hvassviðri er á Vestfjörðum

Ásgeir segir að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sé í öðru verkefni vegna slyss í Kastárfjalli, en þar slasaðist göngumaður.

„Þar eru aðstæður ekki góðar og það fóru undanfarar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg á staðinn. Það er mikil þoka á svæðinu, sviptivindar og ókyrrð í lofti og það hefur verið erfitt að komast að hinum slasaða á fjallinu. Björgunarsveitarfólk hefur verið sent á staðinn,“ segir Ásgeir.

Hann segir að þyrlan hafi lent með undanfarana og bíði á flugvellinum á Höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert