„Vita ekkert hvað þeir eru að fara að borga“

Arent Orri J. Claessen, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Arent Orri J. Claessen, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Það eina sem liggur fyrir er það að við munum borga. Við munum borga meira fyrir rauðu stæðin en það liggur engan veginn fyrir hvað við erum að borga mikið,“ segir Arent Orri J. Claessen, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, um gjaldtöku á bílastæðum við háskólann sem hefjast um áramót.

Segir hann málið búið að vera mikið á vörum nemenda.

„Það er mikill pirringur í fólki og fólk líka skilur þetta ekki alveg,“ segir forsetinn.

Nefnir hann þá að nemendur skólans séu ekki þeir einu sem hafa sett sig upp á móti gjaldtökunni. Hann hafi fengið á fund til sín íbúa sem búa við götur nálægt skólanum. Höfðu þeir safnað undirskriftum allra fasteignaeiganda hverfisins sem lögðust gegn gjaldtökunni og segir Arent gjaldtökuna einfaldlega koma niður á öllum.

„Þetta kemur niður á stúdentum sem eru á meðal tekjulægstu hópa samfélagsins. Þetta kemur líka niður á vinnandi fólki hérna í kring.“

Stæðum við skól­ann verður skipt í tvö gjaldsvæði
Stæðum við skól­ann verður skipt í tvö gjaldsvæði Teikning/Háskóli Íslands

Ekkert samráð

Segir Arent einnig að málið veki upp spurningar varðandi samráðsleysi og segist hann ekki minnast þess að borgarfulltrúi hafi mætt og fengið athugasemdir frá nemendum um samgöngumáta þeirra.

„Það er alltaf gert ráð fyrir því hvernig okkur finnst best að haga okkur. Þessu lýstu íbúar líka. Að það hafi komið tilkynning í sumar um þessa gjaldskyldu. Ekkert samráð.“

Í tilkynningunni frá Háskóla Íslands segir að verkefnið sé fyrsta skref HÍ í að hvetja fólk til að ferðast til og frá háskólasvæðisins með vistvænum hætti og að það sé jákvætt framlag til öruggari og umhverfisvænni umferðar við Háskóla Íslands.

Segir einnig að samhliða innleiðingunni sé unnið markvisst að uppbyggingu vistvænna samgöngumáta, s.s. með gerð hjólaskýla og annarrar aðstöðu fyrir hjólreiðafólk.

Vita ekki hvað þau eru að borga fyrir

Í tilkynningu Háskólans kemur einnig fram að nemendur og starfsfólk geti skráð bifreiðir sínar til að fá heimild til að leggja á þeim stæðum án annarrar þóknunar en hóflegs skráningargjalds. Setur forseti Stúdentaráðsins stórt spurningarmerki við þann vinkil málsins.

„Það hefur verið talað um þetta í um eitt og hálft ár og það eina sem að segir um þetta er að þetta sé hóflegt gjald. Hvað er hóflegt? Frábært að þeir hafi hent í einhverja fína tilkynningu og teiknað upp einhver stæði en ég veit ekkert hvað ég er að fara að borga fyrir þetta. Stúdentar vita ekkert hvað þeir eru að fara að borga fyrir þetta. Við höfum ekki hugmynd.“

Aðspurður segir Arent að Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hafi síðustu ár barist harkalega gegn þessari þróun og segir hann að Stúdentaráð muni ávallt beita sér gegn frekari álögum á stúdenta.

„Ef það er ósveigjanlegt, að það séu einhverjar frekari álög þá setjum við allavega kröfur á það að þetta rati beint í gæðin,“ segir forsetinn sem undirstrikar þá jafnframt helstu spurninguna.

„Hvað erum við að fara að borga fyrir þetta og fyrir hvað erum við að borga?“

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert