Ekkert sem bendir til að liðsmenn Hamas séu á Íslandi

Engar upplýsingar eru fyrir hendi sem benda til þess að …
Engar upplýsingar eru fyrir hendi sem benda til þess að stuðningsmenn Hamas, sem ætla að fremja hryðjuverk, séu staddir hér á landi. AFP

Engar upplýsingar eru fyrir hendi sem benda til þess að stuðningsmenn Hamas, sem ætla að fremja hryðjuverk, séu staddir hér á landi. 

Þetta kemur fram í svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, um alþjóðlega vernd frá Gasasvæðinu.

Bergþór spurði m.a. hvort það væru dæmi þess, eða hvor grunur hefði vaknað um, að meðal umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Gasasvæðinu sem flust hefður til Íslands hafi verið liðsmenn eða stuðningsmenn Hamas-samtakanna.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Lögreglu yrði gert viðvart

Í svari ráðherra kemur fram, að ef það komi fram upplýsingar um að umsækjandi um alþjóðlega vernd væri meðlimur í samtökum á borð við Hamas á meðan umsókn viðkomandi væri í málsmeðferð hjá Útlendingastofnun, þá yrði lögreglu gert viðvart.

Í kjölfarið myndi lögregla afla nánari upplýsinga um viðkomandi og framkvæma áhættumat. Að fengnum upplýsingum frá lögreglu kæmi þá til greina að beita réttarreglum um útilokun frá réttarstöðu flóttamanns, segir í svarinu. 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Kæmi til greina að afturkalla alþjóðlega vernd

Ráðherra sagði enn fremur, að ef slíkt álitaefni kæmi upp eftir að málsmeðferð hjá Útlendingastofnun væri lokið, t.d. með veitingu viðbótarverndar eða alþjóðlegrar verndar, yrði sami háttur hafður á, nema að þá kæmi til greina að beita réttarreglum um afturköllun alþjóðlegrar verndar.

„Engar upplýsingar eru fyrir hendi sem benda til þess að stuðningsmenn Hamas, sem ætla að fremja hryðjuverk, séu staddir hér á landi. Í framkvæmd hafa komið upp tilvik þar sem grunur hefur vaknað um að umsækjendur um alþjóðlega vernd tengist Hamas-samtökunum með einhverjum hætti. Eftir ítarlegt áhættumat hefur það verið mat lögreglu að þessir tilteknu einstaklingar teljist ekki ógn við almannaöryggi,“ segir í svarinu. 

Kæmi til greina að beita reglum um útilokun

Bergþór spurði einnig hvernig stjórnvöld hefðu leitast við að koma í veg fyrir að hættulegt fólk frá Gasasvæðinu myndi misnota lagaákvæði um alþjóðlega vernd til að hljóta slíka vernd hér á landi og flytjast til Íslands. 

Í svari ráðherra segir m.a., að ef það komi í ljós að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi t.d. gerst sekur um athafnir sem brjóta í bága við tilgang og meginreglur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna, hafi framið glæp gegn frið, stríðsglæp eða glæp gegn mannkyni eða hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot, þá kæmi til greina að beita réttarreglum um útilokun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert