Hundruð sóttu minningarstund í Lindakirkju í dag til að minnast Bryndísar Klöru sem lést eftir hnífstunguárás á Menningarnótt.
Séra Guðni Már Harðarson, sóknarperstur í Lindakirkju, segir hundruð manns hafa sótt minningarstundina.
„Mörg hundruð bænaljós voru tendruð.“
Fjölskylda, vinir og kunningjar sóttu minningarstundina sem og aðrir sem vildu minnast Bryndísar og votta samúð sína.
Allur gangur var á hve lengi fólk staldraði við og séra Guðni segir að það hafi verið nær stanslaust streymi manna í og úr kirkjunni.
Vinkonur Bryndísar sátu margar hverjar alla minningarstundina, frá tólf til fimm, að sögn séra Guðna.
Hann minnir á Minningarsjóð Bryndísar Klöru sem er í umsjón KPMG og Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, er verndari sjóðsins.
Hægt er að finna nánari upplýsingar um sjóðinn í meðfylgjandi færslu á Facebook-síðu Lindakirkju.