„Það eru allt aðrar aðstæður þarna í dag en verða þegar nýja brúin verður tilbúin um áramót, þá verður ástandið allt annað,“ segir Axel Viðar Hilmarsson, verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni, í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að skilja verði á milli þeirra aðstæðna sem eru í dag og þeirra sem verða í framtíðinni, þegar ný brú verður komin í gagnið.
Hann var spurður um hvernig við verði brugðist í Hornafirði, þar sem kartöflugarðar hafa farið undir vatn þar sem bráðabirgðabrú yfir Hoffellsá og Laxá á Nesjum hleypir ekki nægjanlega miklu vatni undir sig í vatnavöxtum.
Það hefur leitt til þess að vatn hefur safnast fyrir á láglendinu ofan brúarinnar og fært ræktarlönd bænda í kaf.
Axel Viðar segir að verktakinn sem vinnur að brúargerðinni hafi sett upp bráðabirgðabrú og brúarhaf hennar sé ekki nema um 20 metrar.
Nýja brúin verði 114 metrar að lengd, en þegar tillit hafi verið tekið til stöpla, verði virkt brúarhaf um 100 metrar, fimmfalt stærra op en undir bráðabirgðabrúnni. Ástandið í dag segði ekkert til um hvernig það verði í framtíðinni.
Framkvæmdir eru í gangi og segir Axel Viðar að farið verði á staðinn og aðstæður skoðaðar. Viku taki frá því flæddi þar til í ljós komi hvort kartöflugrösin falli og hvernig ökrunum hafi reitt af.
Þótt vatn flæði yfir kartöfluakrana þýði það ekki endilega að uppskeran eyðileggist. Ekki liggi fyrir hvert tjónið hafi orðið, það myndi koma í ljós í haust.
„Þá þarf að meta það og að sjálfsögðu ber Vegagerðin ábyrgð gagnvart landeigendum á því tjóni sem orðið hefur. Við hlaupumst ekki undan ábyrgð,“ segir Axel Viðar.