„Það er ekki laust við það að maður hafi á tilfinningunni að það hafi einhver máttarvöld verið hér að aðstoða aðeins, einhver völd sem erfitt er að henda reiður á,“ segir verkefnastjóri tónleika Skálmaldar í Heimskautagerðinu á Raufarhöfn sem fram fóru í gær.
Um 1.500 gestir nutu tónleikanna í rjómablíðu.
Öllu hafði verið til tjaldað, sérstakur rafstrengur leiddur upp að gerðinu, heljarinnar svið reist og dreki sem vakti yfir því og spúði eldi smíðaður.
Snæbjörn Ragnarsson bassaleikari Skálmaldar lýsir kvöldinu sem „stjarnfræðilegu“.
„Það var mæting fram úr öllum vonum og þessi umgjörð var náttúrulega bæði alveg ótrúlega grand og svöl og ótrúlegt að einhver hafi látið sér detta í hug að gera þetta en svo er líka eins og þetta hafi bara verið smíðað undir okkur,“ segir Snæbjörn og bætir við:
„Það er eins og einhver hafi ákveðið að búa til tónleikastað og vitað að einhver myndi stofna þungarokkshljómsveit 10 árum seinna.“
Þá segir hann að góða veðrið sem var einmitt meðan á tónleikunum stóð sé lyginni líkast.
„Nú hljómar eins og ég sé að ljúga að þér en við erum að keyra heim núna og það er mígandi rigning og skítakuldi hérna og daginn fyrir giggið þurftu þeir sem voru að setja upp sviðið að gera hlé á því vegna þess að það var svo hvasst.
En svo datt allt í dúnalogn, miðnætursól og allt eins gott og það gat verið í gær,“ lýsir Snæbjörn.
Axel Flex Árnason var verkefnastjóri tónleikanna en hann segir sömuleiðis að tónleikarnir, sem eiga sér langan aðdraganda, hafi gengið eins og í sögu.
„Raufarhafnarbúar hafa lengi verið með þennan draum, að fá Skálmöld til að koma hérna og spila, en svo réðu þau mig fyrir einu og hálfu ári og þá var sett full alvara í málið,“ segir Axel og bætir við:
„Þetta hitti allt einhvern veginn svo ótrúlega heim og saman. Þetta var mjög mikið svona „þetta reddast“ en samt var einhvern veginn aldrei hætta á að þetta myndi ekki reddast.“
Þá segir hann að tónleikarnir hafi verið mikilvæg innspýting fyrir Heimskautagerðið og svæðið í kring.
Mikil stemning hafi myndast í Raufarhöfn í tengslum við tónleikana þar sem allir lögðust á eitt við að hjálpa til.
Þrátt fyrir að það sé nánast lygilegt hve vel tónleikarnir gengu segist Axel aldrei hafa efast um að svo yrði.
„Ég vissi allan tímann að við myndum selja alla vega þúsund miða og ég efaðist heldur aldrei um að það yrði gott veður þó svo að margir í kringum mig hafi gert það.
Það er ekki laust við að maður hafi á tilfinningunni að það hafi einhver máttarvöld verið hér að aðstoða aðeins, einhver völd sem erfitt er að henda reiður á,“ segir Axel að lokum.