Úlfur Einarsson, forstöðumaður meðferðarheimilisins Stuðla, segir að lokun á meðferðadeild heimilisins í sumar hafi verið nauðsynleg en að hún hafi klárlega haft áhrif. Þá segir hann að biðlistar eftir meðferð hafi lengst óvenju mikið það sem af er hausti.
Stuðlar eru meðferðarstöð ríkisins fyrir börn og unglinga frá 12 til 18 ára en starfsemin skiptist í neyðarvistun, meðferðardeild og stuðningsheimili.
Síðasta vor var ákveðið að loka meðferðardeildinni í nær fjórar vikur yfir sumartímann.
Í svari mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn umboðsmanns barna um málið kom fram að vandasamt hefði verið að finna sumarstarfsfólk sem hefði þá sérþekkingu og reynslu sem þörf væri á til að veita meðferðarþjónustu yfir sumartímann.
Því hefði verið ákveðið að loka meðferðardeildinni í fjórar vikur í stað þess að skerða þjónustu hennar í þrjá mánuði.
Í samtali við mbl.is segir Úlfur að þetta hafi ekki verið eina ástæða lokunarinnar.
„Það var algjörlega nauðsynlegt að loka meðferðadeildinni. Það voru framkvæmdir á húsnæðinu sem hefðu ekki getað farið fram annars og voru komnar á tíma,“ segir Úlfur og bætir við:
„Það verður að vera hægt að búa í húsinu og það þarf að sinna viðhaldi á því einhvern tímann.“
Hann segist þó ekki gera lítið úr því að lokunin hafi haft neikvæð áhrif.
„Þessi lokun hefur klárlega áhrif. Ég ætla ekki að gera lítið úr þvi. Það komu krakkar inn á neyðarvistun í sumar sem alla jafnan hefðu verið vistuð á langtímaúrræði,“ segir Úlfur.
Spurður hvaða þýðingu það hefur segir hann:
„Það er náttúrulega mun betra að vera í meðferð. Neyðarvistun er bráðaúrræði, í rauninni bara lokuð deild þar sem er ekki skipulagt meðferðarstarf.
Við erum bara að stöðva, liggur við með físískum hætti, skemmandi óæskilega hegðun. Þannig það er ekki það sama.“
Þá segir Úlfur að honum finnist líklegt að lokunin verði ekki með sama hætti að ári.
„Ég held að það sé mjög líklegt að fyrirkomulag lokananna verði með öðrum hætti. Mögulega styttra, mögulega ekki allir á sama tíma, eitthvað slíkt.“
Hann bendir á að þó að meðferðardeildinni hafi ekki verið lokað síðustu ár hafi það vissulega tíðkast í gegnum tíðina en að þá hafi það verið í mun skemmri tíma eða í um tvær vikur.
Úlfur segir að slíkar lokanir tíðkist í mörgum stofnunum.
„Það eru ansi margar stofnanir sem gera þetta, líka sem við miðum okkur við annars staðar. Það er gert ráð fyrir tveggja, þriggja vikna pásu þar sem börn eiga að vera í samskiptum við fjölskyldur sínar.“
Í þessu samhengi segir hann að það sé einmitt undirstaða fyrir þá sem eru í meðferðinni að eiga heimili sem getur sinnt þeim.
„Þetta er ekki búsetuúrræði þar sem börnin bara búa á meðan þau eru vistuð þar en það er líka eitthvað sem að hefur kannski ekki verið gert almennilega ráð fyrir, að bakland þessara barna sem vistast á meðferðaheimilum er kannski ekki með þeim hætti heima að þau ráði við börnin sín og geti sinnt börnunum sínum,“ segir Úlfur og bætir við:
„Það er líka barnaverndarþjónustunnar að tryggja það að börnin eigi heimili sem getur sinnt þeim þó þau séu í meðferð. Það er hluti af meðferðinni að fara í leyfi, helgarleyfi, sumarleyfi, jólaleyfi.
Þannig ef þau geta ekki farið heim á þessu tímabili, í skemmri tíma, þarf kannski að spyrja sig líka af hverju þau eru ekki í búsetuúrræði.“
Spurður hvernig lokanirnar í sumar hafi haft áhrif á biðlista eftir meðferð á Stuðlum segir Úlfar að öll pláss hefðu fyllst um leið og þau opnuðu aftur og að biðlistinn hafi lengst óvenjumikið síðan þá.
„Í rauninni var biðlistinn þegar við opnum ekkert gríðarlega langur en hann hefur lengst mjög hratt eftir að við opnuðum,“ segir Úlfur.
Hann segir að biðlistin lengist vissuleg alltaf á haustin þegar að kerfi á borð við barnavernd fara aftur almennilega af stað en að um sé að ræða óvenjumikla aukningu í ár.
„Ég hef svo sem engar einhlítar skýringar á því af hverju það hrúgast allt í einu svona rosalega mikið inn að hausti en þetta er meira en venjulega,“ segir Úlfur og bætir við
„Vandinn virðist bara vera aðeins meiri.“