Andlát: Björn Jónasson útgefandi

Björn Jónasson útgefandi lést 6. sept­em­ber, 70 ára að aldri.

Björn fædd­ist í Reykjavík 20. júní 1954. For­eldr­ar hans voru Jónas Bergmann Jónsson fræðslustjóri og Guðrún Ö. Stephensen húsmóðir.

Björn hóf útgáfuferil sinn sem ritstjóri Stúdentablaðs Háskóla Íslands og kom að starfsemi Gallerís Svart á hvítu í Suðurgötu 7 í Reykjavík. Það var mikil lyftistöng fyrir þá gerjun sem þá var í íslenskri myndlist, einkum fyrir unga myndlistarmenn og þar á meðal úr nýlistadeildinni, sem þá lét að sér kveða en fékk síður brautargengi í hefðbundnum myndlistarsölum.

Hann lét víðar til sín taka á tímum umbrota í listum og stjórnmálum, þar sem markmiðið var að gera menninguna bæði frá fyrri tíð og samtíma aðgengilega almenningi.

Björn stofnaði útgáfuna Svart á hvítu sem gaf út Íslendingasögurnar með nútímastafsetningu, Sturlungasögu og heildarverk Jónasar Hallgrímssonar. Þá hóf útgáfan vinnu við útgáfu Sögu-Atlas.

Svart á hvítu var jafnframt útgefandi fjölda þýddra sem og íslenskra skáldverka og meðal þekktra höfunda í þeim hópi má nefna Thor Vilhjálmsson, Vigdísi Grímsdóttur, Umberto Eco og Virginiu Woolf. Björn stóð jafnframt að gerð gagnagrunns með Íslandslýsingu og Lagagrunns með öllum íslenskum hæstaréttardómum frá upphafi.

Útgáfufélagið Guðrún sem Björn stofnaði árið 1992 gaf meðal annars út Hávamál á 15 tungumálum og Snorra Eddu með myndskreytingum þekktra listamanna, sem hefur verið dreift um allan heim. Einnig gaf hann út tvö bindi Guðdómlega gleðileiksins eftir Dante, Víti og Skírnarfjall, í þýðingu Einars Thoroddsen undir ritstjórn Jóns Thoroddsen með myndskreytingum eftir Ragnar Kjartansson og Elínu Hansdóttur.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Björns er Elísabet Guðbjörnsdóttir lögmaður. Börn þeirra eru Anna Lísa, Ingibjörg og Jónas Bergmann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert