„Getum öll sameinast um að láta fólk vita“

App­el­sínu­gul viðvör­un tek­ur gildi á Norður­landi eystra og Strönd­um og …
App­el­sínu­gul viðvör­un tek­ur gildi á Norður­landi eystra og Strönd­um og Norður­landi vestra í dag. Hún tek­ur síðan gildi á Aust­ur­landi að Glett­ingi á morg­un. Kort/Veðurstofa Íslands

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir að björgunarsveitum hafi ekki enn borist neitt útkall vegna veðurs og að í raun sé enginn sérstakur viðbúnaður hjá þeim vegna óveðursins sem spáð er að gangi yfir stóran hluta landsins í vikunni.

Hann brýnir þó fyrir fólki að vera duglegt að miðla upplýsingum til ferðamanna.

Förum vonandi ekki í nein útköll

App­el­sínu­gul viðvör­un tek­ur gildi á Norður­landi eystra og Strönd­um og Norður­landi vestra í dag. Hún tek­ur síðan gildi á Aust­ur­landi að Glett­ingi á morg­un.

Gul viðvör­un er nú þegar í gildi á Norður­landi eystra, Miðhá­lend­inu og Strönd­um og Norður­landi vestra.

„Ég held að lykilatriðið núna sé að ferðaþjónustuaðilar eða þeir sem eru með erlenda gesti okkar í gistingu passi upp á að fólk sé meðvitað um hvað er að koma hérna yfir í dag og á morgun og eitthvað fram eftir vikunni,“ segir Jón Þór og bætir við:

„Þá þurfum við kannski ekki að fara í nein útköll. Vonandi þurfum við ekki að fara í nein útköll.“

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Ljósmynd/Landsbjörg

Þeir sem ætli yfir fjallvegi hinkri

Spurður hvaða tilmæli það eru sem beina mætti til erlendra gesta segir Jón Þór að það verði hver og einn að meta á hverjum stað enda erfitt að gefa eitthvað eitt út fyrir allt það svæði sem um ræðir.

Aðalatriði sé þó ef til vill að fólk sem sé kannski alls ekki vant vetrarakstri við aðstæður eins og þær sem eru að skapast leggi ekki af stað yfir fjallvegi á bílum sem ekki eru útbúnir fyrir veturinn.

„Ég held að við getum öll sameinast um að láta fólk vita. Að þeir sem ætla að fara yfir fjallvegi hinkri kannski aðeins,“ segir Jón Þór og bætir við að veðrið hafi ef til vill minni áhrif á þá sem ætla að ferðast innan héraðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert