Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að hafna beiðni Sigríðar J. Friðjónsdóttur um að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari verði leystur frá störfum tímabundið.
Þetta staðfestir Guðrún í samtali við mbl.is.
„Það er mín skoðun að ummæli vararíkissaksóknara séu óviðeigandi og þau eru ekki í samræmi við stöðu hans. Þau voru aftur á móti látin falla við afar sérstakar aðstæður, í umræðu um einstakling sem hafði hótað honum og fjölskyldu hans yfir tíma og viðkomandi einstaklingur hlaut dóm fyrir. Þannig á grundvelli þess meðalhófs þá er það niðurstaða mín að taka tillit til þeirra aðstæðna og veita honum ekki lausn,“ segir Guðrún.
Þann 29. júlí óskaði Sigríður eftir því við dómsmálaráðherra að Helgi yrði leystur frá störfum vegna ummæla sem hann lét falla um ákveðinn hóp manna sem væru að koma til landsins.
Af hverju tók sex vikur að komast að niðurstöðu í málinu
„Þarna er um að ræða mikilvæg stjórnarskrávarin réttindi – tjáningarfrelsi fólks – og svo ákæruvaldið í landinu. Það er fullkomlega eðlilegt að taka sér tíma til að skoða málið vel og vandlega,“ segir hún og bætir við að í áminningarmálinu frá ágúst 2022 þá hafi tekið mánuð að komast að niðurstöðu.
Kourani hefur tvívegis hlotið dóm fyrir hótanir í garð Helga. Á tíu daga tímabili í janúar árið 2021 sendi hann Helga sex tölvupósta með líflátshótunum í garð hans og í sumum tilvikum einnig fjölskyldu hans.
Svo þann 7. mars hótaði hann Helga ítrekað lífláti í afgreiðslurými ríkissaksóknara.
Helgi ræddi við mbl.is eftir að dómur féll í máli Mohamad Kourani þar sem hann hlaut átta ára fangelsisdóm fyrir tilraun til manndráps og stórfellda líkamsárás, auk annarra brota.
Í því viðtali sagði Helgi að Ísland væri að breytast og að ýmis dæmi væru um að hingað til lands væru að koma menn sem hefðu önnur viðhorf til náungans, laga, reglna og mannréttinda.
Guðrún fékk lögfræðilega ráðgjöf innan ráðuneytisins sem og frá tveimur lögfræðistofum.
„Ég gerði það því að þetta mál á sér fá ef nokkur fordæmi,“ segir hún.
Álitin voru ekki samhljóða um það hvort að vararíkissaksóknari hefði farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis sem embættismaður. Annað álitið taldi líkur á því að hann hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis á sama tíma og hitt álitið taldi svo ekki vera.
„Þegar ég horfi á álit bæði ráðuneytisins og þau álit sem ég hef fengið og horfi á þetta heildstætt þá er þetta niðurstaða mín. Mér finnst liggja í hlutarins eðli að ég get ekki tekið íþyngjandi ákvörðun ef ég get ekki treyst því að hún sé réttmæt,“ segir hún.
Spurð að því hvað taki við, segir hún að um starfsmannamál sé að ræða og hún væntir þess að fólk muni áfram standa vörð um ákæruvaldið.
„Nú er búið að leysa úr þessu lögfræðilega álitaefni og málinu er lokið hvað mína aðkomu varðar,“ segir hún.
Hún segir að þetta mál sýni mikilvægi þess að standa vörð um ákæruvaldið.
„Það er ein af okkar grunnstoðum í okkar réttarríki. Ég tek það mjög alvarlega en það felst ekki síst í því að tryggja líka öryggi þeirra sem starfa innan kerfisins. En því miður þá er það bara raunveruleikinn að margir sem starfa innan kerfisins verða fyrir hótunum og líka ofbeldi og mér finnst það alvarlegt og við því verður að bregðast.
Það ætla ég mér að gera og ég hef þegar haft samband við ríkislögreglustjóra og óskað eftir tillögum að skýrum umbótum því að við þurfum að tryggja öryggi æðstu embættismanna.“