Fimm starfshópar, tvö undirbúningsfélög og framkvæmdanefnd hafa verið stofnuð vegna áforma um framkvæmdir við þjóðarhöll innanhússíþrótta og þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsíþróttum frá árinu 2015, þegar ráðgjafarfyrirtækið Borgarbragur hóf forathugun fyrir Knattspyrnusamband Íslands í tengslum við nýjan þjóðarleikvang í Laugardal. Er þá ótalinn starfshópur um þjóðarleikvanga sem skipaður var í apríl 2013.
Að verkefninu hafa auk þess komið tvö erlend ráðgjafarfyrirtæki og álíka mörg íslensk. Enn bólar þó ekkert á framkvæmdum og ekki ein einasta skóflustunga hefur verið tekin í Laugardal, þrátt fyrir að stjórnvöld stefni nú að því að reisa nýja þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir og nýjan þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir á næstu þremur til fjórum árum.
Nú stendur svo til að stofna annan starfshóp vegna uppbyggingar þjóðarleikvangs fyrir frjálsíþróttir en viljayfirlýsing um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga í bæði knattspyrnu og frjálsíþróttum var undirrituð í byrjun mánaðar af þremur ráðherrum, borgarstjóra, og formönnum viðkomandi landssambanda.
Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins segir hlægilegt að enn ein viljayfirlýsingin hafi verið undirrituð í aðdraganda kosninga. Hún sé „grímulaus kosningabrella“.
„Það er alltaf verið að klippa borða og undirrita viljayfirlýsingar stuttu fyrir kosningar,“ segir Hildur. „Það er hjákátlegt að eftir alla vinnuna er niðurstaðan sú ein að skipta um undirlag á vellinum.“
Hún segir aðgerðina vissulega löngu tímabæra en að framhaldið sé óráðið og hætta á að úr verði bútasaumur sem enginn verði ánægður með. Framkvæmdaleysið sé skýr birtingarmynd stjórnarhátta sem hafi verið viðhafðir í borginni í áratug. „Mörgu lofað, en litlar efndir.“ Nýr borgarstjóri sé lítið annað en gamall grautur í nýrri skál.
Kveðst Hildur munu óska eftir upplýsingum um heildarkostnað við undirbúninginn og ráðningum fjölda ráðgjafarfyrirtækja. Betra hefði verið að hennar mati að spara innihaldslausar viljayfirlýsingar ef þetta er niðurstaðan. Neyðarástand hafi lengi ríkt í aðstöðumálum knattspyrnunnar sem lýsi sér einna helst í því að enginn leikvangur sé á landinu sem knattspyrnusamband Evrópu samþykki sem leikstað í Evrópukeppni að vetri til.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.