Myndskeið: Skellt í jörðina og sparkað í kviðinn

Enginn er talinn hafa slasast alvarlega í hópslagsmálum sem brutust út fyrir utan Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrr í dag. Myndskeið í dreifingu sem mbl.is hefur undir höndum sýnir hvar dreng er skellt í jörðina og svo sparkað í kviðinn á honum.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að lögreglan og skólayfirvöld séu með málið til skoðunar.

„Það er dálítið skrýtið að krakkar sem eru komnir á framhaldsskólastig, að þeir skuli haga sér með þessum hætti,“ segir hann.

Lögreglan brást fljótt við

Kristján Ásmundsson, skólameistari FS, segir í samtali við mbl.is að starfsmaður skólans hafi tekið eftir því að menn voru að fara út í slagsmál og hafi hringt beint í lögregluna.

„Starfsmaður skólans sá að menn voru að fara þarna út og ætluðu að slást, stormuðu þarna út að aðventistalóðinni. Þannig hann hringdi í lögregluna og lögreglan brást mjög fljótt við og í rauninni stöðvaði þetta í fæðingu,“ segir Kristján.

Spurður hvort að einhver hafi slasast eða farið upp á sjúkrahús til frekari aðhlynningar, kveðst Kristján ekki hafa heyrt af því.

„Reynum að kveða það niður eins og skot“

„Það sem gerðist í dag, það virðist vera eitthvað óuppgert frá helginni,“ segir Kristján en um helgina var Ljósanótt.

Hann tekur fram að nemendur í FS séu indælis fólk en það geti þó alltaf komið upp væringar á milli nemenda.

„Við reynum að kveða það niður eins og skot og lögreglan brást mjög vel við,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert