Lögreglan á Vestfjörðum, í gegnum Neyðarlínuna, fékk seint á laugardagskvöld tilkynningu frá íbúa á Ísafirði sem sagðist hafa séð fleiri en eitt neyðarblys á lofti í firðinum.
Hann gerði sér ekki grein fyrir því hvaðan blysunum hefði nákvæmlega verið skotið á loft.
Hafin var strax eftirgrennslan og þegar hún bar ekki árangur var áhöfn björgunarskipsins Gísla Jóns kölluð út, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.
Óttast var að sjófarandi, til dæmis kajakræðari, eða fjallgöngufólk væru í neyð.
Blys sem þessi eru jafnan um borð í skipum og bátum, auk þess sem margt útivistarfólk hefur slík bjargráð í fórum sínum.
Rétt fyrir miðnættið var viðbragð áhafnarinnar afturkallað þar sem fréttir bárust um að blysin hefðu verið notuð af hópi fólks sem komið hafði saman vegna hátíðarhalda fyrir utan veitingastað á Skutulsfjarðareyri.
„Eins og nafn blysanna gefur til kynna er hér um verkfæri að ræða sem einungis á að nota í neyð, til að óska eftir skjótri aðstoð viðbragðsaðila. Almenn notkun er að sjálfsögðu bönnuð enda þekkjum við flest söguna „Úlfur, úlfur.“ Viðbragðsaðilar hafa ávallt tekið mjög alvarlega þegar neyðarblys eru tendruð eða þeim skotið á loft,“ segir í tilkynningunni.