Páll í leyfi frá Fangelsismálastofnun

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Páll E. Winkel mun taka ársleyfi frá embætti forstjóra Fangelsismálastofnunar frá 1. október og taka að sér störf á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins til áramóta og svo gegna embætti framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna frá áramótum til 30. júní á næsta ári, meðan á námsleyfi Hrafnhildar Ástu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra stofnunarinnar, stendur.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Páll hefur verið forstöðumaður Fangelsismálastofnunar frá árinu 2008, en hann lauk cand. jur prófi frá Háskóla Íslands árið 2000 og stjórnendanámi (Effective Personal Productivity) frá Leadership Management International 2014.

Páll var lögfræðingur hjá Fangelsismálastofnun frá 2001 til 2005, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna 2005-2007 og aðstoðarríkislögreglustjóri 2007.

Hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu mun Páll starfa að heildarendurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna sem ráðuneytið hefur til meðferðar. Vinnan hvílir á skýrslu um Menntasjóð námsmanna sem kynnt var 15. desember 2023 og þeim athugasemdum sem fram hafa komið, t.a.m. við breytingar á lögunum um menntasjóðinn vorið 2024.

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra hefur verið settur forstöðumaður …
Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra hefur verið settur forstöðumaður Fangelsismálastofnunar í fjarveru Páls mbl.is/Hákon Pálsson

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, hefur verið settur forstöðumaður Fangelsismálastofnunar í fjarveru Páls, en Birgir var skipaður lögreglustjóri árið 2021. Hann lauk prófi frá Lögregluskóla ríkisins árið 2000, meistaraprófi í lögfræði árið 2010 og MBA-gráðu árið 2017. Sigurður Hólmar Kristjánsson, staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, mun gegna starfi Birgis þennan tíma.

Í tilkynningunni kemur fram að samkomulag dómsmálaráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins um tímabundinn flutning Páls sé gert á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert