Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að íslenskt samfélag glími við mjög alvarleg eftirköst af kórónuveirufaraldrinum. Sjálfsmynd og félagsþroski barna hafi beðið skipbrot í mörgu tilliti. Segir hann að samfélagsmiðlar, sem börn hafi leitað meira skjóls af, séu einnig mikið eitur í beinum. Hann segir einfaldlega að ekki eigi að hleypa börnum á samfélagsmiðla.
„Ég persónulega spyr hvort það væri verra fyrir átta ára barn að fá karton af Camel en til dæmis iPadinn þinn með öllum forritunum. Það er stórt að segja þetta en þetta er mjög alvarlegt.“
Hvert er svarið?
„Ja, það er ekki Geðhjálp að tala hérna, það er ekki vísindamaðurinn Grímur Atlason með 30 þúsund greinar skrifaðar sem ég er ekki, Camel. Bara allan daginn.“
En ekki fílterslausan?
„Jú, ég held það sé bara fínt. Þá eru líka miklar líkur á að maður hætti þessu. Þá er ég ekki að tala upp neina fíkniefnanotkun. Ég er bara að tala um hætturnar. Við höfum farið svo mikið út í þetta og tekið út fyrir sviga alls konar efni og sagt þau miklu hættulegri en önnur og það hefur oft verið mjög rangt.“
Grímur er gestur Spursmála að þessu sinni, þar sem vanlíðan barna og stóraukið ofbeldi meðal þeirra er til umræðu. Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs SI, sem farið hefur ofan í kjölinn á veikri stöðu drengja í menntakerfinu, er einnig gestur þáttarins, sem aðgengilegur er á mbl.is og öllum helstu streymisveitum.
Segja þeir að TikTok ýti undir margt óæskilegt í samfélagi barna. Velta megi upp þeirri spurningu hvort banna eigi miðilinn hér á landi. Hann er í kínverskri eigu og efnið sem haldið er að börnum á Vesturlöndum er af allt öðrum toga og skaðlegri en það sem haldið er að börnum í Kína.
Í þættinum bendir þáttarstjórnandi á nýja skýrslu stjórnarráðsins frá því í sumar þar sem fjallað er um ofbeldi meðal barna. Tilkynntum brotum þar sem börn eru gerendur hefur fjölgað um nærri 100% á fimm ára tímabili frá 2018.
Grímur setur þetta í samhengi við aðra tölfræði yfir svipað tímabil þar sem andlegri heilsu ungra stúlkna fer mjög hrakandi. Hverfandi hluti þeirra er sáttur í eigin skinni og á sama tíma stóreykst notkun geðlyfja af fjölbreyttu tagi.
Tryggvi tekur undir margt í máli Gríms og bendir á að samfélagsmiðlar ali á efnishyggju og gildum sem risti ekki djúpt. Þar ráði óheilbrigður samanburður við gerviveröld netheimsins.
Segir hann að fleiri breytur virðist hafa áhrif á versnandi andlega líðan drengja.
„Svefninn þeirra er að stórminnka og skerðast og þeir eru í þessum mælingum upp til hópa, vel ríflega þriðjungur segist vera alltaf þreyttur í sínu skólastarfi og lífi. Það er náttúrulega mikil aukning á klámnotkun og tölvuleikjaspilun og svo er líka mikil aukning á stressi á heimilum og í samskiptum við foreldra,“ segir Tryggvi.
Viðtalið við Grím og Tryggva má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.