Segir vanrækslu ÁTVR „aðför að lýðheilsu ungmenna“

Arnar Sigurðsson eigandi Sante.is.
Arnar Sigurðsson eigandi Sante.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Sigurðsson, eigandi Sante.is, gagnrýnir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) nokkuð harðlega í fyrirspurn sem hann sendi Landlæknisembættinu fyrr í dag.

Þar óskar hann eftir svörum við því hvað búi að baki „neikvæðu viðhorfi“ Landlæknis til áfengisverslana sem nýta rafræn skilríki við sölu til viðskiptavina eins og netverslun hans gerir.

„Fyrir neðan öll velsæmismörk“

Í upphafi fyrirspurnarinnar heldur Arnar því fram að ÁTVR hafi í áraraðir viðurkennt vanrækslu í starfi þegar kemur að sölu áfengis til unglinga og í því samhengi vísar hann í tölur um skilríkjaeftirlit í verslunum ÁTVR.

Hann segir frammistöðu stofnunarinnar síðustu ár þegar kemur að því að biðja viðskiptavini um skilríki „fyrir neðan öll velsæmismörk“ og að hún hljóti „að flokkast sem hrein aðför að lýðheilsu ungmenna“.

Þá talar hann um að þessi „vanræksla“ sé einstaklega vandræðaleg í seinni tíð þar sem nú standi til boða að notast við rafræn skilríki sem tryggja 100% árangur á sviðinu eins og Sante.is gerir.

Nýtt þéttleikamet vínbúða

„Það vekur því nokkra furðu að embætti yðar skuli aldrei, svo vitað sé, hafa gert athugasemdir við þetta þó alvarlega lýðheilsumál fyrr en nú þegar stofnunin ræðst gegn þeim aðilum sem tryggja 100% öryggi á þessu sviði.

Þögn stofnunar yðar gagnvart þeim brotaaðila sem síst stendur sig er hinsvegar ærandi og krefst skýringar,“ segir í fyrirspurninni.

Þá setur Arnar spurningarmerki við nokkrar staðhæfingar landlæknis, Ölmu D. Möller, í fyrirlestri í Þjóðminjasafninu á dögunum, en hann segir að þar hafi hún talað um að „íslenska leiðin“, það er að ríkið annist sölu áfengis, væri öðrum þjóðum fyrirmynd að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar þar sem ríkisreksturinn tryggði „takmarkað aðgengi“ „fjölda sölustaða“ og „aldur“.

Arnar spyr hvort að með fjölda sölustaða eigi Alma við að vínbúðir séu hlutfallslega mun fleiri á Íslandi en í öðrum Norðurlandaríkjum. Í því samhengi bendir hann á að nýverið var opnuð ný vínbúð á Akureyri og þar með sett „nýtt þéttleikamet“ hvað áfengisverslanir varða því þær eru nú tvær í 18 þúsund manna samfélagi.

Frítt áfengi í boði

Þá óskar Arnar eftir upplýsingum um hvort rannsóknir hafi verið gerðar á „afar glannalegri markaðssetningu“ sem eigi sér stað í vínbúð ÁTVR í Leifsstöð.

„Búið er að að breyta brottfararverslun í einn allsherjar áfengisranghala, hvar áfengi, snyrtivörum og sælgæti er fléttað smekklega saman og allt umvafið áfengisauglýsingum uppi um alla veggi,“ skrifar Arnar.

Hann spyr sömuleiðis um afstöðu Landlæknis til ómannaðs smökkunarborðs í komusal flugstöðvarinnar þar sem í boði er „ótakmarkað magn af ókeypis áfengi án skilríkjaeftirlits“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka