„Þá hefði hún nú átt að víkja mér úr starfi“

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari ræddi við mbl.is um ákvörðun dómsmálaráðherra.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari ræddi við mbl.is um ákvörðun dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari kveðst vera létt yfir ákvörðun dómsmálaráðherra en segir þó að málið hafi tekið of langan tíma. Hann tekur ekki undir orð dómsmálaráðherra um að ummæli sín hafi verið óviðeigandi.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að hafna beiðni Sigríðar J. Friðjónsdóttur um að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari verði leystur frá störfum tímabundið.

„Ég fagna þessari niðurstöðu og tel hana rétta,“ segir Helgi Magnús í samtali við mbl.is.

Hefði mátt afgreiða málið á tveimur dögum

Telurðu að þetta hafi tekið of langan tíma?

„Já, ég tel að það hefði mátt afgreiða þetta á tveimur dögum,“ svarar Helgi.

Guðrún sagði í samtali við mbl.is að það væri hennar skoðun að ummæli Helga hefðu verið óviðeigandi og ekki í samræmi við stöðu hans. Þau hefðu hins vegar verið látin falla við sérstakar aðstæður.

„Í umræðu um einstakling sem hafði hótað honum og fjölskyldu hans yfir tíma og viðkomandi einstaklingur hlaut dóm fyrir. Þannig á grundvelli þess meðalhófs þá er það niðurstaða mín að taka tillit til þeirra aðstæðna og veita honum ekki lausn,“ sagði Guðrún.

Ekki hans að meta hvort að Sigríði sé stætt að starfa áfram

Ertu sammála því að ummæli þín hafi verið óviðeigandi?

„Nei, ef þau hefðu verið svona óviðeigandi þá hefði hún nú átt að víkja mér úr starfi, er það ekki? Úr því að hún telur að áminningin sé gild og ummælin séu til þess fallin að kasta rýrð á mig, þá hefði hún náttúrulega bara átt að verða við erindinu,“ segir Helgi.

Spurður hvort að Sigríði sé stætt að vera áfram í starfi ríkissaksóknara segir Helgi að það sé ekki hans að meta.

Fagnaðarefni að óvissunni sé eytt

Er það léttir fyrir þig að það sé komin niðurstaða í málið?

„Það er léttir og ég vil bara geta farið að sinna þessu starfi sem ég hef kosið að eyða síðustu 26 ár án þess að standa í einhverju stríði við samstarfsfólk, eins og sett var í gang gegn mér. Það er fagnaðarefni og það er fagnaðarefni að það sé búið að eyða þessari óvissu.“

Hann gerir ráð fyrir því að Sigríður muni hafa samband við sig og bjóða honum aftur til starfa.

„Ekkert vandamál af minni hálfu“

Það hlýtur að vera skrýtið að mæta aftur til starfa, hvernig heldurðu að dýnamíkin verði á skrifstofunni?

„Það er ekkert vandamál af minni hálfu, það hefur aldrei verið. Ég stjórnaði ekki þessu ferðalagi,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert