Stefán Snær Ágústsson, fyrrverandi starfsnemi á Bandaríkjaþingi fyrir Demókrataflokkinn, segir að helsti munurinn á Netflix-þáttunum House of Cards og raunveruleikanum sé sá að ekki hafi verið að drepa fólk í kringum hann á Bandaríkjaþingi.
„Munurinn á House of Cards og því sem ég sá er að það var ekki verið að drepa fólk í kringum mig svona mikið,“ segir Stefán kíminn, spurður að því hver munurinn á raunveruleikanum og Hollywood sé þegar kemur að Bandaríkjaþingi.
Stefán ólst upp að mestu í Bandaríkjunum og komst í starfsnám á þingskrifstofu Erics Swalwells, fulltrúadeildarþingmanns demókrata frá Kaliforníu.
Hann komst að því að hann hefði verið í sama framhaldsskóla og Swalwell og í kjölfarið hafði hann samband og sótti um starf, sem hann fékk.
Um tíu manns voru í starfsnámi á þingskrifstofunni og hafði Stefán það hlutverk að stýra hópnum, en það kallast víst „intern wrangler“ á ensku.
Hann segir að í raunveruleikanum sé það svo að allir stjórnmálamennirnir hafi fyrst og fremst verið að koma sjálfum sér á framfæri.
„Það eru mjög fáir sem eru rosa miklir baráttumenn fyrir fólkið eins og maður myndi vilja,“ segir hann.
Í Dagmálum ræðir hann um reynslu sína af Bandaríkjaþingi, forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 5. nóvember og kappræður Donalds Trumps og Kamölu Harris sem fara fram annað kvöld.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast viðtalið í heild sinni með því að smella hér.