Tölvupóstarnir fóru „í svarthol“ í Borgartúni

Umsjónarmaður húsnæðis hjá Laugarnesskóla segir borgina hafa skellt við skollaeyrum …
Umsjónarmaður húsnæðis hjá Laugarnesskóla segir borgina hafa skellt við skollaeyrum árum saman. Samsett mynd

Umsjónarmaður húsnæðis Laugarnesskóla til þrettán ára lýsir því sem „þrautargöngu“ og „slagsmálum“ að reyna að fá borgaryfirvöld til þess að sinna viðhaldi í skólanum. Hann segir fulla ástæðu til að standa við bakið á þeim fjölda kennara sem hafa þurft að hætta í skólanum vegna veikinda. 

Sjálfur segist hann hafa fundið fyrir einkennum sem voru þess eðlis að læknir hans vildi að hann myndi hætta í starfi. Hann ákvað hins vegar að þrauka þar sem einungis lítill hluti starfsævinnar var eftir. Hann hætti í fyrra og segist finna fyrir bættri líðan í kjölfarið.

Eins og fram kom á mbl.is hafa tugir kennara hætt í skólanum eða farið í veikindaleyfi á undanförnum árum. Telja þeir að loftvist innanhúss sé um að kenna og í skýrslum sem gerðar hafa verið um húsnæðið hefur ítrekað komið fram mygluvandamál í húsnæði skólans.

Hættu að svara honum 

„Ég byrjaði árið 2010 og þá fór strax í gang þessi barátta um að hlutirnir yrðu lagaðir. Þetta voru hlutir sem voru í ólagi þá og eru enn nú fjórtán árum síðar. Gluggarnir hafa míglekið allan tímann,“ segir Þór Wium, fyrrverandi umsjónarmaður fasteigna í skólanum. 

Hann segist hafa „slegist“ við borgina í nokkur ár áður en nokkrir gluggar voru lagfærðir 2014 eða 2015.

Þór Wium er fyrrverandi umsjónarmaður fasteigna hjá Laugarnesskóla.
Þór Wium er fyrrverandi umsjónarmaður fasteigna hjá Laugarnesskóla. Ljósmynd/aðsend

„En þeir láku bara mikið meira árið á eftir. Þannig var ástandið til ársins 2019 þegar eitthvað var reynt að gera en lítið gengið. Málið er það að á skrifstofu borgarinnar í Borgartúni, þegar einhverjir óþægilegir tölvupóstar koma, þá fara þeir ofan í eitthvað svarthol,“ segir Þór.

Hann segir að þrátt fyrir að hans hlutverk hafi verið að huga að fasteigninni hafi borgin ákveðið að hætta að svara umleitunum hans eftir úrbótum á húsnæðinu.

„Það gerðist ekkert vikum og mánuðum saman. Alltaf hélt áfram að leka. Stundum komu menn frá hverfismiðstöðinni með kíttissprautu en það gekk ekki neitt. Alltaf láku gluggarnir. Eftir stórrigningar kom maður gjarnan inn í kennslustofur þar sem pollar voru á gólfunum,“ segir Þór.

Vandamál ekki síst í nýbyggingu 

Vandamálið er ekki síst í nýbyggingu skólans sem byggð var 2004-2006 og helgast það að sögn Þórs af því að gluggarnir þar voru rangt settir í.

Hann segir að ekkert hafi gerst í málinu fyrr en árið 2021 þegar nýr sviðsstjóri tók við hjá umhverfis- og skipulagssviði. Þá var loks farið í heildarúttekt á húsnæðinu. Skýrsla Eflu sem kom út árið 2022 sýndi að ástand húsnæðisins var afar slæmt.

„Ég myndi halda að það sé dýrara að gera við húsnæðið en að byggja nýtt,“ segir Þór en taka ber fram að húsnæðið er friðað af Minjastofnun.

Sífellt að hósta 

Hann segir að hann hafi orðið var við mikla veikindatíðni í kennarahópnum án þess að velta því mikið fyrir af hverju það stafaði. Fólk fór hins vegar að setja það í sterkara samhengi þegar svipuð mál komu upp í Fossvogsskóla. 

„Það er af og frá að fólk hafi verið að gera sér upp veikindi. Ég hef enga trú á því. Ég hjó eftir því, og það var mest áberandi þegar fólk kom inn í morgunsöng sem hefð er fyrir í Laugarnesskóla, að um leið og fólk kom inn í salinn þá hóstaði fólk í sífellu. Fólk gerir sér ekki upp svoleiðis lagað,“ segir Þór.

Líður mun betur

Að sögn Þórs fór hann sjálfur til ofnæmislæknis eftir að hann kenndi sér meins í lungum þegar hann fór inn í skólann. 

„Hún vildi að ég myndi hætta en ég átti svo stutt eftir af starfsævinni, þannig að ég ákvað að klára þetta. Ég varð aldrei jafn veikur og sumir kennarar en ég finn það núna eftir að ég hætti að mér líður betur,“ segir Þór.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert