Varast skal ferðalög að nóttu til

Vegagerðin mun hreinsa helstu vegi að degi til. Mynd úr …
Vegagerðin mun hreinsa helstu vegi að degi til. Mynd úr safni. mbl.is/Þorgeir

„Það er nú fyrst og fremst það að vera ekki að ferðast að næturlagi því þá er kaldast og heldur enginn þjónusta, ekki verið að hreinsa vegi,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar, aðspurður hvað beri að varast í óveðrinu sem spáð er að gangi yfir norðan og austanvert landið næstu daga.

Hann bætir við að þó að þeir sem séu á sumardekkjum geti komið sér í mikil vandræði að nóttu til ætti að vera tiltölulega öruggt að ferðast eftir helstu leiðum á daginn.

„Hinsvegar þá er hitinn aðeins hærri að deginum, við verðum að hafa það hugfast að þó svo að sólin skíni ekki þá er sólarhæðin álíka og er í byrjun apríl, ásamt því að Vegagerðin er þá úti og hreinsar krapa og snjó af þessum aðal leiðum.

Þá ætti svona víðast hvar að vera óhætt að vera á ferðinni að degi til, eins og á morgun,“ segir Einar.

Snjóar ekki í byggð

Þá segir hann að snjókoma verði mest uppi á heiðum og að næturlagi.

„Það er ekki verið að spá snjókomu í byggð, ekki svo það festi, en það getur auðvitað verið smá bleytusnjór eða krapi sem gæti orðið, þá sérstaklega í nótt og fyrst í fyrramálið,“ segir Einar og bætir við:

„Þetta er samt ekki nándar nærri jafn stórt og var í þessu mikla hreti sem var hérna sömu dagana árið 2012. Þá var miklu mikli meiri úrkoma,“ segir Einar.

Getur haft áhrif á ferðafólk

Spurður hvort fólk megi búast við hálku á vegum landsins segir hann að hún fylgi með krapasnjónum en fari þegar hann er hreinsaður af veginum.

„Það er ekki það að yfirborðið frjósi, nema kannski á allra hæstu fjallvegum að næturlagi.“

Að lokum bætir Einar við að auðvitað séu margir fjallvegir sem ekki séu hreinsaðir og það geti haft áhrif á ferðafólk.

„Það eru auðvitað ýmsir fjallvegir sem eru ekki hreinsaðir og svo hefur þetta áhrif á ferðafólk sem er uppi á norðurhálendinu. En það eru svo sem minni tíðindi í því, það getur nú snjóað inn við Dreka í Öskju alla mánuði ársins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert