Aðeins 3% ríkisstofnana skila ársreikningum á réttum tíma í samræmi við lög um opinber fjármál. Er um veruleg frávik að ræða frá lögunum.
Þetta er meðal þess sem lesa má í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar á Fjársýslu ríkisins, en þar er talað um sinnuleysi stofnana við skil reikninganna.
Jafnframt segir Ríkisendurskoðun að innra eftirlit Fjársýslunnar sé brotakennt.
Ríkisendurskoðun ákvað í september í fyrra að gera stjórnsýsluendurskoðun á Fjársýslunni, en það er fyrsta heildstæða úttektin á Fjársýslunni eftir að lög um opinber fjármál frá 2015 tóku gildi. Felur úttektin meðal annars í sér mat á frammistöðu þar sem horft er til meðferðar og nýtingar ríkisfjár og hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri.
Fram kemur að eitt af brýnustu úrbótaverkefnum sem liggi fyrir Fjársýslunni sé að bæta framkvæmd við reikningsskil ríkisaðila og gerð ríkisreikninga. Þá þurfi að eyða væntingabili milli ríkisaðila og Fjársýslunnar í sambandi við framkvæmd reikningsskila og stemma stigu við sinnuleysi stofnana gagnvart tímanlegum skilum.
Tekið er dæmi frá reikningsskilum fyrir árið 2022. Samkvæmt lögum eiga ríkisstofnanir að skila ársreikningum fyrir lok febrúar og hlutafélög í meirihlutaeign ríkisins eiga að skila ársreikningi fyrir lok mars. Hins vegar skiluðu einungis 3% ríkisstofnana ársreikningi fyrir lok mars og 38% stofnana fyrir lok júní. Það þýðir að 62% ríkisstofnana skiluðu ársreikningum meira en fjórum mánuðum eftir að þeim bar að gera það samkvæmt lögum.
Skilgreint markmið Fjársýslunnar er að 95% stofnana skili inn afstemmdu og lokuðu bókhaldi fyrir lok febrúar, en árið 2023 hafði innan við helmingur stofnana skilað nauðsynlegum gögnum. Þetta veldur því að tími fram að birtingu ríkisreiknings er knappur og sníðir meðal annars Ríkisendurskoðun þröngan stakk til að endurskoða ríkisreikninga.
Þá er bent á að starfshættir stofnunarinnar hafi liðið fyrir að mikilvægar umbætur hafi ekki notið forgangs, þrátt fyrir að hafa verið bundnar í stefnumiðaðar áætlanir. Nefnir Ríkisendurskoðun að ekki hafi tekist að ljúka skipulegri innleiðingu þjónustusamninga, gerð þjónustustefnu eða heildstæðri skjölun allra lykilferla Fjársýslunnar.
„Sem stendur er innra eftirlit stofnunarinnar brotakennt og ómarkvisst,“ segir í úttekt Ríkisendurskoðunar um Fjársýsluna.
Leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að lögð verði meiri rækt við yfirumsjónar-, leiðbeiningar- og eftirlitshlutverk Fjársýslunnar gagnvart bókhaldi og reikningsskilum ríkisaðila.
Á jákvæðu nótunum bendir Ríkisendurskoðun á að Fjársýslan hafi tekið forystu við innleiðingu sjálfvirknivæðingar verkferla sem auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri og framkvæmd margra lykilverkefna. „Sú þróun er afar jákvæð og mikilvægt að stofnunin haldi áfram á sömu braut og leitist við að fá fleiri ríkisaðila til að sjálfvirknivæða ferla viðvíkjandi fjárhag og rekstri,“ segir í úttektinni.
Í skýrslunni eru settar fram 20 ábendingar. Sjö ábendingum er beint til fjármála- og efnahagsráðuneytis og varða fjórar þeirra endurskoðun á lagaramma Fjársýslu ríkisins, setningu reglugerða sem enn vantar í sambandi við framkvæmd laga um opinber fjármál, aukna festu í stefnumótun og bætt árangursmat og innleiðingu IPSAS (alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila).
Í þremur ábendingum er hvatt til samvinnu við Fjársýsluna en þær ábendingar varða gerð þjónustusamninga, fjármögnun starfsemi Fjársýslunnar, könnun á fækkun fjárlagaliða og endurskoðun verklags við gerð mánaðar- og ársfjórðungsskýrslna.
Í þeim þrettán ábendingum sem beint er til Fjársýslunnar er að finna tillögur til úrbóta og eflingar á mikilvægu starfi stofnunarinnar. Þar á meðal eru ábendingar er varða gerð þjónustustefnu og þjónustusamninga, gerð og miðlun leiðbeininga, fræðslustefnu og námskeið, auk ábendinga sem varða rekstur upplýsingakerfa.