Einn þeirra sem handteknir voru í tengslum við rannsókn á hnífstungumáli sem kom upp í nótt reyndist hafa strokið frá Stuðlum og hefur verið fluttur þangað aftur. Hann er undir 18 ára aldri.
Þetta staðfestir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Tveir aðrir sem handteknir voru í tengslum við málið eru enn í haldi lögreglu, en tekin verður skýrsla af þeim síðar í dag.
Sá sem fyrir árásinni varð hlaut minniháttar áverka og leitaði aðhlynningar á spítala í nótt. Hann er útskrifaður þaðan, að sögn Ásmundar.