Um eitt hundrað athugasemdir bárust í skipulagsgátt vegna fyrirhugaðra breytinga á svokölluðu Klettasvæði og stækkun landfyllingar í Klettagörðum.
Lögð er til breyting á deiliskipulagi sem felur í sér að deiliskipulagssvæðið er stækkað til norðvesturs þannig að það nái yfir lóð Veitna við Klettagarða 14 og yfir stækkun á landfyllingu Klettagarða.
Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu var fyrri landfylling á svæðinu framkvæmd á árunum 2019-2020. Seinni landfyllingin verður norðaustur af hinni fyrri, fyrir framan skolphreinsistöð Veitna.
Hún verður 1,9 hektarar að stærð. Áætlaður framkvæmdatími er 5-7 ár, frá 2024 til 2031, eftir því hversu hratt efni berst frá framkvæmdasvæðum í borginni. Fyrirséð er að Faxaflóahafnir og Veitur muni skorta athafnasvæði á komandi árum.
Umræddar athugasemdir eru margar frá íbúum í nágrenninu og eru þær flestar mjög neikvæðar. Íbúar lýsa sig ýmist mótfallna landfyllingunni eða segja undirbúningsferli og umhverfismat gallað.
Margir benda á að með væntanlegri landfyllingu verði ekki lengur hægt að sjá út í Viðey frá Laugarnesi en það gangi gegn svokallaðri Verndaráætlun, samningi Reykjavíkurborgar og Minjaverndar frá 2016 um vernd Laugarnestanga og útsýnis frá svæðinu.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.