Skýrast mun á næstu dögum hver framtíð apóteksins á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi verður. Lokað hefur verið í útibúi Apótekarans frá því í vor er boðaðar voru endurbætur á húsnæðinu. Ekki hefur orðið vart við neinar framkvæmdir í húsnæði verslunarinnar og nú er að heyra að óvíst sé hvort og þá hvenær opnað verði á ný.
„Við eigum eftir að taka endanlega ákvörðun um hvert framhaldið verður. Þetta mun liggja fyrir á næstu dögum og verður kynnt í kjölfarið,“ segir Kjartan Örn Þórðarson, framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu, sem rekur verslanir Apótekarans.
Gluggar apóteksins hafa verið huldir síðustu mánuði en viðskiptavinum tilkynnt að lokunin sé aðeins tímabundin. „Kæri viðskiptavinur. Vegna breytinga lokar Apótekarinn hér á Eiðistorgi tímabundið í sumar. Við tökum vel á móti þér aftur í haust,“ segir í tilkynningu á glugga verslunarinnar.