Stefnt verður að því að klára söluna á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir lok kjörtímabilsins. Bankinn verður seldur í tveimur lotum, önnur lotan fyrir áramót og hin lotan eftir áramót.
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is í kjölfar kynningar á fjárlögum 2025.
Til stóð að selja hluta ríkisins í einni eða tveimur lotum. Bjarni Benediktsson hafði sagt í samtali við mbl.is í ágúst að salan færi eftir markaðsaðstæðum en að raunhæft væri að losa um eignarhlutinn í vetur.
Af hverju er verið að selja í tveimur lotum, eru markaðsaðstæður ekki nógu góðar?
„Það var ákveðið í frumvarpinu sem var samþykkt á þinginu og við erum að fylgja því. Punktur prik,“ segir Sigurður.
Er einhver ástæða fyrir því að þetta er selt í tveimur áföngum?
„Það þótti skynsamlegra,“ segir hann.
Aðspurður segir hann að planið sé að selja Íslandsbanka fyrir lok kjörtímabilsins.