„Ég var að vona að þau sæju tækifæri í því að breyta um takt og kynna einhvern sparnað í ríkisrekstrinum. Þessi stöðugi útgjaldavöxtur, sem ég held að eigi sér engin fordæmi, er rót verðbólgunnar sem heldur uppi vöxtum og hefur áhrif á allt samfélagið.“
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, um nýtt fjárlagafrumvarp sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag.
Í nýjum fjárlögum er gert ráð fyrir að heildarhalli ríkissjóðs nemi 41 milljarði króna á næsta ári samanborið við 57 milljarða króna halla á yfirstandandi ári.
„Því er núna haldið fram að það sé verið að sýna aðhald í fjárlögunum, en þegar betur er að gáð þýðir aðhald hjá þessari ríkisstjórn að hún ætli ekki að eyða eins miklum peningum og hún hefði getað hugsað sér að gera,“ segir Sigmundur. „Það er ekkert aðhald.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í dag að fjárlögin stuðluðu að lækkun verðbólgu með aðhaldi upp á 29 milljarða.
Þá var kynnt að stærsta skattkerfisbreytingin fælist í kerfisbreytingu á gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti. Í byrjun næsta árs verður kílómetragjald einnig lagt á bifreiðar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
Þetta gagnrýnir Sigmundur og segir að það muni leiða til þess að fyrirtæki neyðist til að hækka sín gjöld vegna aukinnar gjaldtöku ríkisins.
Spurður hvað hann hefði vilja sjá í nýjum fjárlögum segir hann:
„Ég hefði viljað sjá alvöru átak í að auka hagkvæmni í ríkisrekstri og spara, skila hallalausum fjárlögum og það strax.
Það sendir skýr skilaboð út í fjármálakerfið og atvinnulífið að það sé verið að taka á málunum sem ég held að hafi jákvæð áhrif til að draga úr verðbólgunni.“